Skólabragur

Skólabragur

Skólabragur lýsir starfsháttum og andanum sem ríkir í skólanum. Hann mótast af þeim samskiptum sem viðgangast innan skólans. Mikilvægt er að viðhalda góðum skólabrag sem hvetur til jákvæðra og uppbyggilegra samskipta, eflir sköpunarkraft nemenda og ýtir undir að þeir geri sitt besta í námi. Hlúa þarf að líðan nemenda, leggja áherslu á góðan starfsanda og lýðræðisleg vinnubrögð. Jákvæður skólabragur eykur vellíðan og starfsgleði nemenda og starfsfólks.

Í Menntaskólanum á Egilsstöðum er góð aðstaða til náms og hvetjandi umhverfi. Þar eru nemendur fáir og aðgengi þeirra að starfsfólki gott. Hver einstaklingur skólasamfélagsins er mikilvægur og hlustað er á sjónarmið allra með sanngirni að leiðarljósi. Upplýsingaflæði er öflugt og boðleiðir skýrar. Til að efla skólabraginn hefur skólinn sett sér starfsmannastefnu, jafnréttisáætlun, eineltisáætlun, siðareglur og skólareglur til að vinna eftir. Áhersla er lögð á vellíðan, umburðarlyndi, skilning, virðingu og góða umgengni. Nemendaþjónusta skólans vinnur að velferð og heill nemenda og tryggir þeim tækifæri til náms. Mikilvægt er að nemandi eigi kost á námi við hæfi og geti stundað það á eigin hraða. Reynt er að hafa námsframboð sem fjölbreyttast og kennsluhættir og námsframboð eru í sífelldri þróun. Verkefnatímar auka sjálfstæði nemenda og ábyrgð á eigin námi. Lögð er áhersla á að efla seiglu í námi og trú á eigin getu. Skólinn er heilsueflandi skóli og stuðlar þannig að heilbrigðum lífsstíl. Rekið er mötuneyti þar sem boðið er upp á hollan og góðan mat auk þess sem heimavist skólans setur svip á skólamenninguna. Heimavist ásamt öflugu fjarnámi stuðlar að jafnrétti til náms óháð búsetu.

Nemendafélag Menntaskólans eflir virkni og félagsþroska nemenda og eykur gleði og vellíðan. Starfsmannafélagið Búbót eflir starfsanda og samvinnu.

Hafðu samband

v/Tjarnarbraut
700 Egilsstaðir
Netfang: skrifstofa@me.is
Sími: 471-2500
Kt. 610676-0579