Heimavistarreglur

Reglur heimavistar

 1. Yfirstjórn heimavistar er í höndum skólameistara. Dagleg stjórn heimavistar er í höndum húsbónda/húsfreyju sem er fulltrúi skólameistara en umsjón með og ábyrgð á að reglum sé fylgt hvílir á hverjum einstökum íbúa heimavistar.
 2. Heimavistarbúar kjósa fimm manna vistarráð og fimm varamenn, skal það kosið innan tveggja vikna frá upphafi haustannar á almennum vistarfundi. Fráfarandi vistarráð situr fram að kosningum.  Leitast skal við að meðlimir vistarráðs hafi sem fjölbreyttastan bakgrunn.
 3. Skólameistari fer með dómsvald í málum er rísa vegna brota á heimavistarreglum. Dómum skólameistara má vísa til heimavistarráðs.
 4. Almennan fund vistarbúa skal boða með sólarhrings fyrirvara með auglýsingum í húsum heimavistar.  Einfaldur meirihluti ræður á fundum.
 5. Reglur heimavistar skal endurskoða árlega en breytingar taka aðeins gildi að fenginni staðfestingu skólaráðs.  Til að breytingatillögur verði bornar undir skólaráð þarf einfaldur meirihluti á löglega boðuðum fundi að samþykkja þær.
 6. Heimavistin er heimili þeirra sem þar búa.  Heimilismenn skoðast sem leigjendur að tilteknu húsnæði, réttindi þeirra og skyldur byggjast á leigusamningi og miðast við gildandi lög og reglur vistarinnar.
 7. Vinnufriður skal ávallt vera á heimavistinni, jafnt á herbergjum sem á göngum.  Frá kl. 24:00 til 7:00 dag hvern skal vera algert næði á vistinni. Næði skal auk þess vera til kl. 12:00 á sunnudögum og öðrum frídögum.  Meðan próf standa yfir skal vera góður vinnufriður allan sólarhringinn í húsum heimavistar.
 8. Öll meðferð áfengra drykkja og annarra vímuvaldandi efna er bönnuð í húsum heimavistar og varðar brottvikningu er út af er brugðið. Þá er nemanda óheimilt að dvelja á heimavistinni undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Skólinn stendur fyrir reglubundnum og fyrirbyggjandi aðgerðum, svo sem utanaðkomandi eftirliti af hálfu lögreglu.
 9. Reykingar og önnur tóbaksnotkun er bönnuð með landslögum í öllu vistarhúsnæði ME og á lóð skólans.
 10. Vistarbúar skulu ganga vel um hús, lóð og allt umhverfi.  Herbergjum sínum skulu þeir halda hreinum og snyrtilegum.  Bannað er að ganga á útiskóm um heimavistina og rusl á heima í ruslafötum.   Húsbóndi/húsfreyja í samvinnu við heimavistarráð lítur eftir því að þessu sé framfylgt.
 11. Skemmdir á húsum eða munum skal tilkynna húsbónda/húsfreyju og ber að bæta þær að fullu.  Skemmdir sem unnar eru vísvitandi varða brottrekstri.
 12. Sérhver vistarbúi getur kært brot á vistarreglum til skólameistara eða húsbónda/freyju.  Endurtekin brot á vistarreglum geta valdið brottrekstri.
 13. Hús heimavistar eru læst á virkum dögum frá kl. 24:00 til kl. 7:30.  Þá skal enginn óviðkomandi vera í húsum heimavistar.  Húsbóndi/húsfreyja er á vakt til kl. 1:00 og hleypir vistarbúum inn fram að þeim tíma. Aðfaranótt laugardags og sunnudags ræður húsbóndi/húsfreyja mann til næturvörslu gegn þóknun.
 14. Gestir á heimavist skulu almennt virða það að vistin er heimili íbúanna. Þeir skulu hafa vikið af vistinni fyrir 23:30 á kvöldin.
 15. Gestir á grunnskólaaldri þurfa leyfi húsfreyju til að heimsækja heimavistarbúa. Á vetrum gilda almenn viðmið um útivistartíma barna og dvelja grunnskólanemendur ekki lengur á heimavist en sá tími segir til um.
 16. Vistarbúa er því aðeins heimilt að hafa hjá sér næturgest, að sambýlingur og húsbóndi/húsfreyja samþykki.  Næturgestir skulu eigi vera yngri en á 16. aldursári og verða gestir undir lögaldri að framvísa skriflegu leyfi foreldra. Sækja þarf um gestaleyfi til húsbónda/húsfreyju með minnst sólarhrings fyrirvara.  Gestir eru að fullu á ábyrgð gestgjafa og ber þeim að hlíta heimavistarreglum.  Sama gildir um gesti frá öðrum skólum.
 17. Vistarbúar sem hyggjast dvelja á heimavist, vinnu sinnar vegna eða vegna langrar vegalengdar heim, á lokuðum helgum skulu sækja um það hjá húsfreyju á fimmtudagskvöldi. 

Samþykkt í heimavistarráði 21.okt.2008, á almennum heimavistarfundi 22. okt. 2008 og skólaráði 3. nóv. 2008

                                Síðast uppfært haustið 2017

Vinnureglur varðandi umgang starfsmanna ME um herbergi vistarbúa

Reglur um notkun öryggismyndavélakerfa ME

 

Hafðu samband

v/Tjarnarbraut
700 Egilsstaðir
Netfang: skrifstofa@me.is
Sími: 471-2500
Kt. 610676-0579