Hlutverk og tilurð skólanámskrár

Hlutverk og tilurð skólanámskrár

Skólanámskrá er stefnuskrá skólans sem þarf að vera í sífelldri endurskoðun og þróun. Námskráin birtist á vefnum í stuttum köflum þar sem finna má tilvísanir í ítarlegri umfjöllun þegar það á við. Þetta er gert með það fyrir augum að verkið verði sem aðgengilegast fyrir lesendur hvort heldur nemendur, foreldra, starfsfólk eða aðra sem vilja kynna sér starfsemi Menntaskólans á Egilsstöðum.

Í framhaldsskólalögum nr. 92/2008 segir að sérhver framhaldsskóli skuli gefa út skólanámskrá sem skiptist í tvo hluta, almennan hluta og námsbrautarlýsingar. Í almennum hluta skólanámskrár er gerð grein fyrir starfsemi skólans, helstu áherslum og stefnumörkun, stjórnskipan, námsframboði og skipulagi náms, kennsluháttum, námsmati, stuðningi, ráðgjöf og þjónustu við nemendur, réttindum og skyldum nemenda, foreldrasamstarfi og samstarfi við utanaðkomandi aðila, sjálfsmati og gæðamálum og öðru sem skóli kýs að kveða á um í skólanámskrá. Jafnframt er gerð grein fyrir því hvernig skólinn uppfyllir skilyrði samkvæmt almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla og markmið laga og reglna. Framhaldsskólar setja sér námsbrautarlýsingar og leggja þær fyrir ráðherra til staðfestingar.
Skólanámskrá skal staðfest af skólanefnd að fenginni umsögn skólafundar. Skólanefnd fylgist með framkvæmd skólanámskrár.

Formleg vinna við skólanámskrá Menntaskólans á Egilsstöðum hófst haustið 2009 þegar farið var að vinna drög að nýjum námsbrautarlýsingum. Í kjölfarið hófu kennarar vinnu við gerð nýrra áfangalýsinga. Fljótlega kviknaði hugmynd um að skipta skólaárinu upp í fjórar spannir og setja stóran hluta kennslustunda undir verkefnatíma til móts við bundna tíma. Þetta kallaði á umtalsverðar breytingar á skólastarfi sem starfsfólk skólans hefur lagt mikinn tíma og metnað í. Vinna við almennan hluta námskrárinnar hófst árið 2012 og var ákveðið að leggja áherslu á birtingu námskrárinnar á heimasíðu skólans.
Þau ár sem námskrárgerðin stóð yfir voru ráðnir verkefnisstjórar til að halda utan um verkið, ýmist einn eða tveir í senn, og störfuðu þeir í nánum tengslum við stjórnendur og starfsmenn skólans. Frá upphafi komu starfsmenn ríkulega að námskrárgerðinni í stærri og smærri hópum. Námskrárteymi starfaði þann tíma sem vinnan var í gangi en það samanstóð af stjórnendum, kennslustjórum og verkefnisstjórum námskrárvinnu. Námskrárteymi var stjórnendum verksins til halds og trausts, m.a. varðandi verklag og tiltekna hluta námskrárinnar.

Hafðu samband

v/Tjarnarbraut
700 Egilsstaðir
Netfang: skrifstofa@me.is
Sími: 471-2500
Kt. 610676-0579