Námsbrautir frá 2014

Meginmarkmið framhaldsskólabrautar er að bjóða upp á skilgreind námslok af stuttri braut sem undirbýr nemendur fyrir frekara nám og störf. Á brautinni eru nemendur aðstoðaðir við að byggja upp trú á eigin getu og seiglu í námi, auk þess að efla sjálfsmynd og sjálfsskilning. Nemendum eru kynntar mismunandi leiðir í menntakerfinu og þeir aðstoðaðir við að marka sér stefnu í námi og starfi. Nemendur fá hagnýta menntun í kjarnagreinum jafnt sem öðrum greinum auk þess sem þeir eru fræddir um vinnumarkaðinn. 

Á listnámsbraut er boðið upp á grunnmenntun á sviði sjónlista og sviðslista. Stúdentspróf af brautinni nýtist í framhaldsnámi í öllum listgreinum auk flestra greina hug- og félagsvísinda auk þess sem brautin veitir nemendum góðan undirbúning undir nám og störf í víðu samhengi. Mörg tækifæri liggja til framþróunar á sviði lista- og menningar þar sem margs konar skapandi greinar skipa stöðugt veigameiri sess í atvinnulífinu. Nám á brautinni er 206 einingar. Hér má sjá inntökuskilyrði á brautir skólans.

Markmið starfsbrautar er að undirbúa nemendur undir lífið og þátttöku í atvinnulífinu og/eða frekara námi. Nemendahópurinn er breiður og námið og/eða hæfniviðmiðin geta verið einstaklingsmiðuð. Starfsbraut er fyrir nemendur sem hafa verið í námsverum eða í sérdeildum í grunnskólum og/eða haft aðlagað námsefni. 

Markmið náttúrufræðibrautar er að búa nemendur undir nám í raunvísindum, heilbrigðisgreinum, verkfræði eða skyldum greinum á háskólastigi. Að námi loknu eiga nemendur að hafa góða undirstöðuþekkingu í raunvísindum og stærðfræði og vera færir um að nýta hana við margvísleg verkefni í daglegu lífi, starfi og við frekara nám. Nám á brautinni er 206 einingar. Hér má sjá inntökuskilyrði á brautir skólans.

Markmið félagsgreinabrautar er að bjóða nemendum upp á fjölbreytt almennt nám til stúdentsprófs. Brautin er góður undirbúningur fyrir nemendur sem ætla sér í framhaldsnám í félags- og hugvísindum. Þar sem brautin gefur kost á miklu frjálsu vali geta nemendur lagað hana að þörfum sínum og áhugasviðum og undirbúið sig þannig fyrir ýmiskonar framhaldsnám. Má þar nefna kennaranám, heilbrigðisgreinar og íþróttanám. Nám á brautinni er 206 einingar. Hér má sjá inntökuskilyrði á brautir skólans.

Alþjóðabraut býr nemendur undir ýmis störf heima fyrir og á erlendum vettvangi svo sem í störfum við alþjóðleg fyrirtæki, fréttamennsku, og önnur störf við fjölmiðla, utanríkisþjónustu, ásamt störfum tengdum leiðsögn og ferðaþjónustu. Í flestum störfum er nú krafist góðrar þekkingar á íslensku, ensku og fleiri tungumálum.
Tungumálanám er undirstaða fyrir allt háskólanám hérlendis og erlendis. Flestar kennslubækur á háskólastigi eru á ensku eða öðrum erlendum tungumálum. Nám á brautinni er 206 einingar. Hér má sjá inntökuskilyrði á brautir skólans.

Hafðu samband

v/Tjarnarbraut
700 Egilsstaðir
Netfang: skrifstofa@me.is
Sími: 471-2500
Kt. 610676-0579