Vímuvarnir

Vímuvarnir

Úr stefnu ME í vímuvörnum
Skólinn leitast við að vinna að viðhorfsbreytingu meðal nemenda og hvetja þá til vímulauss lífernis. Lögð er áhersla á að styðja og efla frumkvæði nemenda sjálfra í baráttu gegn neyslu fíkniefna. Skólinn reynir að veita áhugasömum nemendum, sem vilja vinna með skólafélögum sínum á jafningjagrundvelli, svigrúm til þess innan einstakra námsgreina eftir því sem við verður komið og kennarar telja kleift án þess að það komi niður á námi þeirra. Kennurum er heimilt í samráði við skólameistara að reikna störf að fíknivörnum til eininga.

Nemendafélagið (NME) leiti leiða, í samvinnu við skólayfirvöld, til að breyta yfirbragði dansleikja á þess vegum og draga úr áfengisneyslu nemenda.


Almennir þættir í starfi skólans.

  • Nemendum er neysla áfengis eða annarra vímuefna óheimil á ferðalögum eða skemmtunum á vegum skólans. Brot varðar brottvísun úr skóla að undangengnu viðtali við yfirvöld skólans. Nemanda er gert að ræða við forvarnafulltrúa áður en hann hefur nám að nýju. Endurtekin brot varða endanlegri brottvikningu úr skóla.
  • Nemendum sem verða uppvísir að því að koma undir áhrifum áfengis eða annarra fíkniefna í skólann er vikið úr skóla og gert að ræða við forvarnafulltrúa áður en þeir koma í skólann aftur.
  • Óheimilt er að neyta áfengis og annarra vímuefna í húsnæði skólans.
  • Nemendum sem verða uppvísir að sölu eða dreifingu ólöglegra fíkniefna eða ólöglegri sölu eða milligöngu á sölu áfengis, er umsvifalaust vikið að fullu úr skóla.

Fræðsla
Nemendur fái fræðslu um tóbak, áfengi og önnur fíkniefni á tveimur fyrstu árum í framhaldsskóla Annars vegar verður fræðslan tengd grunnáföngum í félags-, heilbrigðis- og sálarfræði og einnig íþróttum til þess að tryggja að hún nái til allra nemenda en hins vegar í formi viðfangsefna eða verkefna innan ýmissa námsgreina í samráði við kennara. Öllum starfsmönnum ber að vinna að framkvæmd vímuvarnastefnu skólans samkvæmt nánari skilgreiningu í skólanámskrá.

Að auki verður gripið til eftirfarandi ráðstafana á hverju misseri:

  • Jafningjafræðsla framhaldsskólanema kynni nemendum hverju sinni það sem hún hefur fram að færa.
  • Kennarar skólans í heilbrigðisfræði og íþróttum taki saman stutt námskeið um tóbak, áfengi og fíkniefni fyrir alla nemendur skólans.
  • Auk almennra upplýsinga um skaðsemi neyslu þessara efna er lögð sérstök áhersla á að efla andstöðu nemenda gegn neyslu þeirra. Í því skyni er lögð áhersla á sjálfstæða upplýsingaöflun nemenda og að þeir taki afstöðu til fíkniefnamála á grundvelli þekkingar.

Íhlutun
Skólinn leggur áherslu á að beita áhrifum sínum og möguleikum til þess að hafa áhrif á óheillavænlega þróun í fíkniefnaneyslu nemenda eins snemma og auðið er. Í því skyni er athyglinni einkum beint að eftirfarandi vísbendingum og neyslu og/eða misnotkun fíkniefna: Versnandi árangur í námi, miklar fjarvistir og ölvun og/eða neysla annarra fíkniefna á skemmtunum á vegum skólans eða nemendafélagsins. Einnig vísbendingar um endurtekna vímuefnanotkun heimavistarbúa svo sem ef þeir koma endurtekið undir áhrifum áfengis inn á heimavistir.

Skólinn setur sér ákveðnar reglur um hvenær tímabært þykir að grípa inn í mál og vísa nemendum til starfshóps sem skipaður er skólameistara/aðstoðarskólameistara, námsráðgjafa og áfangastjóra.

Heimavistarbúa, sem uppvís er að neyslu áfengis eða annarra vímuefna á heimavist, er umsvifalaust vikið af vist og úr skóla í viku. Þann tíma skal nemandinn nota til að taka á málum sínum, leita sér ráðgjafar, meðferðar eða annarra leiða sem skólinn samþykkir. Geti nemandi lagt fram ábyrga áætlun um viðbrögð að viku liðinni skal honum heimiluð skóla- og heimavist að nýju en nemandi skal víkja úr skóla og af heimavist þegar við brot á umsaminni áætlun.

Heimasíða skólans um vímuvarnir.

Hafðu samband

v/Tjarnarbraut
700 Egilsstaðir
Netfang: skrifstofa@me.is
Sími: 471-2500
Kt. 610676-0579