Samstarfsaðilar

Samstarfsaðilar

Grunnskólar
Á vorönnum býður ME nemendum í 9. og 10. bekk grunnskólanna á Austurlandi í heimsókn. Þar eru námsskipulag, námsbrautir og félagslíf nemenda m.a. kynnt og koma stjórnendur, kennarar og nemendur að kynningunni. Helsti markhópur ME er grunnskólanemendur á Austurlandi og tilgangur kynningarinnar að veita þeim innsýn í skólastarfið.
Þegar einkunnir liggja fyrir í grunnskólum á vorin boðar ME til skilafunda þar sem aðilar nemendaþjónustu skólans hitta fulltrúa viðkomandi grunnskóla á Austurlandi. Þar er farið yfir gögn sem fylgja nemendum úr grunnskólum. Fundirnir eru gagnlegir til þess að raða nemendum á námsbrautir og í áfanga auk þess sem þeir auðvelda skólanum að mæta þörfum nýrra nemenda.

Framhaldsskólar
Menntaskólinn á Egilsstöðum er aðili að Fjarmenntaskólanum sem er samstarfsvettvangur flestra framhaldsskóla á landsbyggðinni. Markmið samstarfsins er að auka framboð náms á framhaldsskólastigi á starfssvæði skólanna og á landinu öllu. Einkum er horft til þess að auka framboð á sérgreinum starfsnámsbrauta. Hver skóli býður einnig upp á fjarnám í almennum bóklegum greinum.

Háskólar
Kynningarfulltrúar íslensku háskólanna heimsækja skólann á hverri vorönn og kynna starf skólanna og námsmöguleika.
Fulltrúum erlendra háskóla býðst einnig að heimsækja skólann.

Austurbrú
Menntaskólinn á Egilsstöðum var stofnaðili að Fræðsluneti Austurlands sem síðar varð Þekkingarnet Austurlands. Þekkingarnetið er í dag ein af grunnstoðum Austurbrúar. Austurbrú og ME eiga samstarf um fullorðinsfræðslu.

Sveitarfélög á Austurlandi
Sveitarfélög á Austurlandi eru stofnaðili að byggingu kennsluhúss skólans. Skólinn leigir aðstöðu fyrir íþróttaiðkun í íþróttamannvirkjum Fljótsdalshéraðs.
Samstarf hefur verið á milli Fljótsdalshéraðs og skólans um ráðningu verkefnisstjóra sviðslista en hlutverk hans er að efla veg sviðslista á Austurlandi. Hann vinnur að mótun sviðslistanáms á listabraut Menntaskólans á Egilsstöðum og kennir sviðslistaáfanga við skólann.
Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) tilnefnir tvo fulltrúa í skólanefnd skólans.

Söfn á Austurlandi
Til að auka víðsýni sína og menntun heimsækja nemendur skólans ýmis söfn á Austurlandi með kennurum sínum eftir því sem hæfir námsgreinum. Upplifun á safni er góð tilbreyting og hvetjandi fyrir skapandi hugsun.

Vatnajökulsþjóðgarður
Skólinn tekur þátt í verkefnum í samvinnu við Vatnajökulsþjóðgarð þegar svo ber undir. Sem dæmi um samstarf má nefna þátttöku skólans í Need verkefni 2008-2010.

Vinnumarkaður
Menntaskólinn á Egilsstöðum hefur samvinnu við fyrirtæki um vinnustaðanám nemenda á starfs- og framhaldsskólabrautum. Námsframboð í fullorðinsfræðslu tekur mið af eftirspurn atvinnulífsins og er áhersla lögð á sérhæfða menntun sem nýtist á svæðinu. Nokkur fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök hafa hvatt nemendur til góðs árangurs með viðurkenningum sem veittar eru við útskrift.

Heilbrigðisstofnun Austurlands
Menntaskólinn á Egilsstöðum er í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) um fyrirkomulag skólahjúkrunar. Einnig er samstarf um geðþjónustu í gegnum verkefnið Aðstoð við börn með geðrænan vanda á Austurlandi (ABG).
Umönnunarbraut ME var hönnuð í samvinnu við HSA og fer vinnustaðanám brautarinnar fram á vegum stofnunarinnar á Austurlandi. Einnig eru störf hjá HSA metin til eininga sem vinnustaðanám á félagsliðabraut.

Félagsþjónusta
Menntaskólinn á Egilsstöðum er í samstarfi við félagsmálayfirvöld sveitarfélaga á Austurlandi og víðar um persónulegan vanda nemenda. Skólinn vinnur eftir verklagsreglum um tilkynningaskyldu starfsmanna leik-, grunn- og framhaldsskóla til barnaverndarnefnda. Samningur um nám á framhaldsskólabraut gerir ráð fyrir að foreldrar samþykki að þiggja ráðgjöf og stuðning frá félagsþjónustu sveitarfélags ef þurfa þykir.
Samstarf er á milli skólans og félagsmálayfirvalda vegna nemenda með skilgreindar fatlanir samkvæmt lögum um málefni fatlaðra.

Alþjóðasamstarf
Skólinn leitast við að taka þátt í samskiptum við skóla í Evrópu enda auka alþjóðleg samskipti víðsýni nemenda, efla skilning þeirra á mikilvægi tungumálakunnáttu og veita innsýn í líf og störf fólks erlendis. Algengast er að hópur nemenda undir stjórn kennara taki þátt í verkefnum með gagnkvæmar heimsóknir í huga. Heimsóknirnar njóta jafnan styrkja.
Áfangi um erlend samskipti er í brautarkjarna alþjóðabrautar. Markmið hans er að ýta undir og efla alþjóðasamskipti nemenda sem læra erlend tungumál. Í skólanum er starfandi verkefnisstjóri sem heldur utan um erlend samskipti.
Síða skólans um erlend samskipti.

Ferðalög
Nemendur Menntaskólans á Egilsstöðum fara í ýmsar ferðir á vegum skólans. Þar er um að ræða styttri námsferðir innanlands og ferðir utan í stöku námsgreinum. Einnig er farið á vegum Nemendafélagsins í heimsóknir í aðra skóla og keppnisferðir.
Í öllum ferðum gilda reglur um ferðalög á vegum skólans.

Hafðu samband

v/Tjarnarbraut
700 Egilsstaðir
Netfang: skrifstofa@me.is
Sími: 471-2500
Kt. 610676-0579