Verklagsreglur vegna undanþága í námi

Verklagsreglur varðandi undanþágur í námi

Verklagsreglur varðandi umsóknir nemenda um undanþágur frá áföngum til stúdentsprófs á grundvelli greininga um einhverskonar námserfiðleika eða hindranir í námi.

Nemandi sækir um undanþágu frá áföngum til stúdentsprófs með því að leita til Nemendaþjónustu ME.

Til þess að undanþágubeiðni sé tekin fyrir þarf eftirfarandi að vera til staðar og sannreynt:

  1. Greining frá viðurkenndum fagaðila, t.d. á grunni LOGOS, Talnalykils og WISC.
  2. Mat á hvernig gekk í grunnskóla, árangur í viðkomandi fagi, ástundun, mætingar. Gekk fagið brösuglega og er sýnt að námserfiðleikar og/eða hindranir í námi hafi haft áhrif þrátt fyrir samviskusemi í mætingu og ástundun?
  3. Nemandi þarf að reyna a.m.k. einu sinni við áfangann/fagið sem um ræðir og sýna fram á mætingu í samræmi við mætingarskyldu, og samviskusemi í ástundun og námi.
  4. Notar nemendinn hjálpartæki sem hann á rétt á, vegna námserfiðleika til að auðvelda sér námið? Má þar nefna hljóðbækur, skyggðar glærur og önnur úrræði.

Skólameistari tekur ákvörðun um afgreiðslu undanþágu og byggir hún á fyrrgreindum þáttum.

Í stað þeirra eininga sem nemandi fær undanþágu frá lýkur hann jafn mörgum einingum í öðrum fögum. Æskilegt er að þær séu valdar í samráði við námsráðgjafa.

Aðrar ástæður sem geta réttlætt undanþágu frá áföngum til stúdentsprófs:

Ef nemandi er með undanþágu frá viðkomandi fagi úr grunnskóla þá heldur sú undanþága einnig í framhaldskóla.

Ef nemandi hefur búið erlendis, utan Norðurlanda og hefur þar af leiðandi ekki grunn í dönsku eða öðru Norðurlandamáli þá getur viðkomandi sótt um undanþágu frá dönsku og tekið annað tungumál (sem kennt er frá grunni innan framhaldsskólans) s.s. spænsku, þýskuí staðinn.

Nemandi sem búið hefur erlendis eða er af erlendum uppruna á þess kost að taka stöðupróf í viðkomandi tungumáli og fá þannig undanþágu frá annaðhvort dönsku eða þriðja tungumáli.

Síðast uppfært 21.11.2017

Hafðu samband

v/Tjarnarbraut
700 Egilsstaðir
Netfang: skrifstofa@me.is
Sími: 471-2500
Kt. 610676-0579