Fréttir og greinar

Menntaskólinn á Egilsstöðum er einn af 24 framhaldsskólum á landinu sem taka þátt í Lýðræðisherferðinni #ÉgKýs og skuggakosningunum 13. október. Samband íslenskra framhaldsskólanema í samvinnu við Landssamband æskulýðsfélaga standa fyrir verkefninu en megin tilgangur verkefnisins er að auka lýðræðisvitund ungs fólks og þátttöku í kosningum. Í lýðræðisvikunni 10.-13. október eru kennarar sérstaklega hvattir til að leggja fyrir lýðræðistengd verkefni í tímum og framhaldsskólanemar hvattir til að kynna sér framboðin til kosninga þann 29. október vel. Mikilvægt er að unga fólkið, jafnt sem eldra myndi sér upplýsta skoðun á þeim framboðum sem í boði eru og kynni sér því málið vel.

Hluti af verkefninu er vefurinn egkys.is þar sem finna má handbók um framkvæmd skuggakosninga, tillögur að lýðræðisverkefnum og upplýsingar um framboðin. Á síðunni er einnig tengill á Kosningavitann sem er könnun sem hjálpar fólki að staðsetja sig í pólitík. Kosningavitinn er unninn af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Menntaskólinn á Egilsstöðum hvetur alla nemendur með kosningarétt til að taka þátt í skuggakosningunum þann 13. október og í framhaldinu kosningm til alþingis þann 29. október næstkomandi.

Geðræktardagurinn á Austurlandi verður haldinn 1. október næstkomandi í Grunnskólanum á Reyðarfirði.

Verkefnið er samstarfsverkefni HSA, Félagsþjónustu Fjarðarbyggðar og Fljótsdalshéraðs, Menntaskólans á Egilsstöðum, Verkmenntaskóla Austurlands, VIRK og Starfa. 

Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um aukinn geðheilbrigðisvanda og úrræðaleysi á Austurlandi. Meðal annars til að bregðast við þessari umræðu tóku samstarfsaðilarnir höndum saman og skipulögðu Geðræktardaginn. Nauðsynlegt er að opna umræðuna um geðheilbrigðismál og fræða fólk almennt um þau. Þá er mjög mikilvægt að upplýsa fólk um leiðir til að leita sér aðstoðar hér á Austurlandi. Við hvetjum alla til að mæta á staðinn, en allar nánari upplýsingar má finna inni á facebook í viðburðinum "Geðræktardagurinn á Austurlandi."

Meðal þeirra erinda sem eru á dagskrá eru nemendur úr ME og VA sem deila reynslu sinni af baráttu við geðræna sjúkdóma, Orri Smárason sálfræðingur verður með fyrirlestur um kvíða, Landlæknisembættið verður með kynningu á heilsueflandi samfélagi. Jón Sigfússon frá Rannsóknum og greiningu verður með erindi um vaxandi kvíða og þunglyndi ungra stúlkna, Velferðarráðuneytið verður með kynningu á aðgerðaráætlun um geðheilbrigðismál, og ýmsar stofnanir á Austurlandi verða með kynningu á starfsemi sinni.

Dagskráin hefst kl. 10 en húsið opnar kl. 9:30. Aðgangur er ókeypis.

Listnámsbraut ME, með Ólöfu Björk Bragadóttur í forsvari, fékk úthlutað styrk úr Sprotasjóði í sumar upp á 2.6 miljónir króna. Verkefnið ber heitið Listmenntun til sjálfbærni - listasmiðjur.

nemendurlistasmidja16

Verkefnið snýr að listsköpun með sjálfbærni að leiðarljósi þar sem ungt listafólk úr fjórðungnum vinnur með nemendum listnámsbrautar ME og ýmsum öðrum aðilum eða hópum úr samfélaginu á sem fjölbreyttastan hátt í skapandi greinum; sjónlistum, tónlist og sviðslistum.

Í þessu verkefni er leitast við að virkja listafólk úr sem flestum listgreinum sem hafa menntað sig í listum og hönnun hérlendis og erlendis, og fá þau til að standa fyrir og skipuleggja listasmiðjur,meðal annars með þátttökulistsköpun.

Verkefnið miðar að því að efla listnámsbraut Menntaskólans á Egilsstöðum en einnig að vera leiðandi afl hvað varðar þverfaglega nálgun í menntun til sjálfbærni á Austurlandi. Með verkefninu verður leitast við að tengja betur skólastigin í fjórðungnum og ýmsa aðra hópa í samfélaginu með skapandi samstarfsverkefnum.

Verkefnið er sprottið út frá meistaraverkfeni Ólafar "Plasfljótinu", en það verkefni miðar að því að benda á leiðir þar sem listsköpun er nýtt til að vekja fólk til umhugsunar um sjálfbæra þróun. Eitt af stóru markmiðunum er því að vernda náttúruna og minnka vistspor okkar hér á jörðu.

Hafðu samband

v/Tjarnarbraut
700 Egilsstaðir
Netfang: skrifstofa@me.is
Sími: 471-2500
Kt. 610676-0579