Fréttir og greinar

Fögnum fjölbreytileikanum og gleðjumst saman

Nemendur af listnámsbraut ME sjá um skipulagningu hátíðarinnar "List án Landamæra" hér fyrir austan í ár undir leiðsögn Ólafar Bjarkar Bragadóttur kennslustjóra listnámsbrautar ME. Um er að ræða tvær opnanir, annarsvegar í Sláturhúsinu á Egilsstöðum miðvikudaginn 8. maí kl. 18:00 og hinsvegar Gallerý Klaustur, Skriðuklaustri laugardaginn 11. maí kl. 14:00.

Verkin sem verða til sýnis koma víða að en sýningin er haldin í samstarfi við bæði einstaklinga og hópa sem vildu taka þátt og láta ljós sitt skína. Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna og sjálfbærni voru höfð að leiðarjósi í mörgum verkanna og ekki síst hvað varðar að eyða fordómum og vinna að jafnrétti í heiminum öllum til handa. Á listahátíðinni má sjá handverk, þrykk, textílverk, handgerð kerti og aðra nytjalist frá Stólpa. Skúlptúra, málverk, teiknimyndaseríur og fleira frá nemendum leik-, grunn- og framhaldsskóla af Austurlandi. Samstarfsverkefni listamannanna Odee og Arons Kale verða til sýnis í Sláturhúsinu. Kvikmyndin Byrjuð að leita sem er afrakstur kvikmyndanema ME og VA í samstarfi við Stúdíó Sýrland verður sýnd. Anna Brina sýnir heimildamynd sína um Vistsporin og heimsmarkmiðin. Þá verða sýndar nokkrar kvikmyndir nemenda starbrautar ME og Stólpa. Verkið Tyggjó sem er lokaverkefni Steingríms Arnar nemenda í ME verður í frystiklefanum. Ljósmyndasýning KOX- filman er ekki dauð, verður á efri hæð Sláturhússins. Tónlistarariði verða við opnun hátíðarinnar frá nemendum ME, Sokara, Kristófer og fleirum. 

Boðið verður upp á léttar veitingar við opnun, frítt inn og allir velkomnir. Báðar sýningarnar eru opnar á opnunartíma húsanna og standa út mánuðinn. Hvetjum alla til að kíkja við og gera sér glaðan dag.

Fésbókarsíðu hátíðarinnar má finna hér og viðburðinn fyrir sýningarnar má finna hér.

Hafðu samband

v/Tjarnarbraut
700 Egilsstaðir
Netfang: skrifstofa@me.is
Sími: 471-2500
Kt. 610676-0579