Skólastefna

Stefna Menntaskólans á Egilsstöðum

Skólastefna Menntaskólans á Egilsstöðum var samþykkt á fundi skólanefndar 5. mars 2008.
Skólastefnan er í endurskoðun


Hún skiptist í eftirfarandi kafla:

1. Hlutverk skólans og sérstaða

Menntaskólinn á Egilsstöðum starfar samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 80/1996.  Með stefnuskrá sinni vill ME skapa sem bestar aðstæður til að þjóna því hlutverki sem honum er ætlað samkvæmt lögum, reglugerðum og Aðalnámskrá framhaldsskóla.
Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi. Framhaldsskólinn býr nemendur undir störf í atvinnulífinu og frekara nám. Menntaskólinn á Egilsstöðum leggur áherslu á að sinna öllum nemendum sem í hann sækja og býður því fjölbreytt nám og námsleiðir til að koma til móts við þarfir mismunandi einstaklinga. 
Framhaldsskóli skal leitast við að efla hvern einstakling, víðsýni hans, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi. ME  leggur í stefnu sinni áherslu á þessa þætti enda meginmarkmið skólans að veita hverjum einstaklingi sem besta þjónustu.  Kennarar og starfsfólk hafa það markmið að  þjálfa nemendur í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum,  gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til stöðugrar þekkingarleitar.Menntaskólinn á Egilsstöðum býður nemendum góða aðstöðu og persónulega þjónustu við hæfi hvers og eins.

2. Námið

Námsframboð skal ávallt vera metnaðarfullt og fjölbreytt þannig að það höfði til sem flestra.
a)  Námsbrautir sem í boði eru, bæði stúdentsprófsbrautir og styttri brautir, verði styrktar og markvisst unnið að uppbyggingu   og þróun þeirra. 
b)  Áhersla verði lögð á að bjóða upp á fjölbreytt kjörsvið.
c)   Möguleikar til vaxtar skulu ávallt hafðir í huga við skipulagningu skólastarfsins, með nýjum námsgreinum og nýjum     námsbrautum. 
d)  Stefnt verði að því að setja á stofn grunndeild í einni eða tveimur iðngreinum (t.d. raf- og tréiðnum).
e)   Nemendum, sem standa vel í námi, er boðið að stunda nám á Hraðbraut og flýta þannig námslokum.
f)   Áhersla er lögð á öfluga Almenna braut sem styrkir nemendur og gerir þá færa um að takast á við frekara nám.
g)  Efla skal listnámsbraut og starfsnámsbraut í íþróttum og þær námsleiðir kynntar vel. 

Áhersla er lögð á öguð vinnubrögð nemenda og undirbúning fyrir háskólanám og margvísleg störf.
a)   Nemendur taki ábyrgð á námi sínu frá upphafi, sýni sjálfstæði og frumkvæði í vinnubrögðum.
b)   Nemendur tileinki sér árangursríka námstækni í öllum námsgreinum.               

Boðið verði upp á fjarnám í sem flestum áföngum og það auglýst á landsvísu.
a)   Fjarnám verði eflt til að bæta aðgengi að námi í ME og fjölga nemendum. 
b)   Námsframboð verði eflt með aðgengi að vönduðu fjarnámi frá öðrum skólum.
c)   Þróað verði sérstakt námsframboð með fjarnámssniði fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskóla. 

Ávallt sé boðið upp á nám í kvöldskóla / samhliða vinnu,  til eflingar atvinnulífs á svæðinu. 
a)  Áhersla verði lögð á að bjóða hagnýtt nám sem nýtist sem flestum.
b) Unnin verði langtímaáætlun um námsframboð í kvöldskóla í samvinnu við aðila í atvinnulífi og aðra framhaldsskóla á svæðinu.

3. Þjónusta

Menntaskólinn á Egilsstöðum leggur áherslu á að veita nemendum persónulega þjónustu við hæfi hvers og eins, þannig að nemendum líði sem best og nái þannig árangri í námi. 
a)  Nemendum standi ávallt til boða fagleg þjónusta við skipulagningu námsins.
b) Nemendaþjónusta ME skipuleggur þjónustu þar sem lögð er áhersla á að veita nemendum með sérþarfir stuðning og benda þeim á úrræði sem nýtast þeim þannig að þeir hafi sambærileg tækifæri og aðrir til að nýta hæfileika sína í námi.
c)  Allir nemendur skólans hafa umsjónarkennara sem fylgist með námsframvindu þeirra og námsgengi. 
    Sjá stefnu Nemendaþjónustu ME og leiðir sem þar eru tilgreindar. 


Starfsemi bókasafns ME skal ávallt til fyrirmyndar
a)  Á bókasafni skal veittur aðgangur að bókum, tímaritum, nýsigögnum, sem og öðrum safnkosti, sem styður við nám og kennslu í skólanum.
b)  Kennarar eru hvattir til að nýta bókasafnið með fjölbreyttum og lifandi hætti og  þjálfa með því sjálfstæð vinnubrögð nemenda við upplýsingaöflun. 

Við Menntaskólann á Egilsstöðum er rekin heimavist og mötuneyti
a)  Nemendum og starfsmönnum skal ávallt bjóðast fjölbreytt og hollt fæði á sanngjörnu verði. Í mötuneytinu er farið eftir markmiðum Lýðheilsustofnunar við val á hráefni og samsetningu matseðla.
b)   Heimavist ME skal vera traust og öruggt heimili fyrir þá nemendur sem þar dvelja.  Aðstaða skal ávallt vera eins góð og kostur er.

4. Starfsmenn og umhverfi

Áhersla er lögð á að starfsmenn skólans búi við ákjósanlegar starfsaðstæður og að hæfileikar hvers einstaklings fái sem best notið sín. 
a)   Skýr starfsmannastefna stuðlar að því að starfsmönnum líður vel á vinnustað og skapar góðan starfsanda.  (Sjá frekar starfsmannastefnu ME) 
b)  Virk jafnréttisstefna stuðlar að því að mannauðurinn sé sem best nýttur í þágu nemenda og skólans.  (Sjá frekar jafnréttisstefnu ME).
c)    Áhersla skal lögð á að starfsmenn hafi tækifæri til endurmenntunar sem nýtist í öllu starfi skólans.
d)   Allir starfsmenn beri ábyrgð á því að skólastarfið sé til fyrirmyndar og skólabragur sem bestur.
e)   Við skólann starfi virkt starfsmannafélag.               

Lögð er áhersla á gott samstarf við foreldra og forráðamenn enda er það lykill að góðum árangri nemenda í námi.
a)  Við skólann starfi öflugt foreldrafélag og hollvinafélag sem tekur þátt í og styður skólastarfið af heilum hug. 

Áhersla er lögð á virkt félagslíf nemenda enda er það þýðingarmikill þáttur í þroska þeirra að takast á við krefjandi og fjölbreytt verkefni. 
a)   Nemendur fái stuðning í félagslífi sínu, t.d.  með aðstoð félagsmálafulltrúa.
b)   Nemendur í forystu félagslífs fái tilsögn og leiðbeiningar um fundasköp og félagsmál þannig að starfið í nemendafélagi færi þeim aukna þekkingu og þroska.
c)   Stefnt verði að því að gefa út myndarlegt skólablað einu sinni á vetri. 

Starf Menntaskólans á Egilsstöðum verði ávallt kynnt sem best.
a)  Unnið verði kynningarefni um skólann og því dreift til grunnskólanema og víðar.  
b)   Haldinn verði opinn dagur einu sinni á ári þar sem foreldrum og velunnurum skólans er boðið að kynna sér starfsemi skólans. 

Tengsl við atvinnulíf og stofnanir á svæðinu verði efld með það í huga að styrkja starfsemi skólans.
a)   Komið verði á víðtækum tengslum við fyrirtæki og stofnanir bæði með styrkjum við einstök verkefni innan skólans en einnig með samstarf í huga s.s. á sviði rannsókna, starfsnáms o.fl.

5. Jafnréttisáætlun Menntaskólans á Egilsstöðum

Menntaskólinn á Egilsstöðum setur sér jafnréttisstefnu sem byggð er á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008.

Markmið jafnréttisstefnu er að tryggja að karlar og konur njóti jafnréttis í skólanum bæði nemendur og starfsfólk og að  allir fái notið sín.  Ennfremur er markmið jafnréttisstefnunnar að stuðla að því að samþætting kynjasjónarmiða verði ráðandi við ákvarðanatöku, stefnumótun og í allri starfssemi skólans.

Hér má finna jafnréttisáætlunina í heild sinni.

6. Framtíðarsýn

Menntaskólinn á Egilsstöðum mun vinna markvisst að því að styrkja stöðu sína sem leiðandi framhaldsskóli á Austurlandi. Áhersla verður lögð á fjölbreytt og spennandi námsframboð sem kemur til móts við mismunandi þarfir einstaklinga og í því sambandi verði hugað sérstaklega að námi í verkgreinum.ME leggur áherslu á að styrkja nemendur sem einstaklinga þannig að þeir geti tekist á við fjölbreytt verkefni í námi og starfi.ME efli tengsl sín við fyrirtæki og stofnanir í fjórðungnum og á landsvísu.ME verði vel kynntur á landsvísu fyrir frumkvæði á sviði framsækins skólastarfs og persónulegrar þjónustu.

7. Heilsustefna ME

Heilsuefling í Menntaskólanum á Egilsstöðum er sameiginlegt verkefni stjórnenda, starfsmanna og nemenda.

Menntaskólinn á Egilsstöðum vinnur markvisst að heilsueflingu nemenda og starfsfólks. Skólinn býður upp á vinnuaðstöðu, fræðslu og aðstæður sem hvetja til virkrar þátttöku og aukinnar meðvitundar um gildi bættrar heilsu og líðanar. Jafnframt er lögð áhersla á að hver og einn geri sér grein fyrir ábyrgð á eigin heilsu. Með heildrænni stefnu á sviði heilsueflingar og forvarna hefur skólinn áhrif á daglegar venjur meðlima skólasamfélagsins og stuðlar þannig að bættu starfi, betri líðan og auknum  árangri í námi og starfi.

Meginmarkmið verkefnisins
Meginmarkmið verkefnisins eru að marka stefnu um hollustuhætti, heilbrigði, aðbúnað og öryggi þeirra sem nema og starfa í Menntaskólanum á Egilsstöðum.  Ætlunin er að hafa heilsueflandi áhrif á allar daglegar venjur og starf í skólanum.

Meðal þess sem unnið er að er:

 • að auka hlutfall þeirra sem fara í gegnum skólann vímulausir og neyta þar með ekki áfengis, tóbaks eða annarra vímuefna.
 • að auka hlutfall þeirra sem stunda reglubundna hreyfingu.
 • að auka hlutfall þeirra sem velja sér hollt mataræði.
 • að auka vellíðan þeirra sem nema og starfa í skólanum. Bætt líðan – betri árangur.
 • að auka meðvitund  og þekkingu um hvað felst í heilsusamlegu líferni og ávinninginn sem því fylgir.
 • að hver og einn geri sér grein fyrir ábyrgð á eigin heilsu.

Til að uppfylla meginmarkmið verkefnisins eru sett fimm undirmarkmið er lúta að

    1) aukinni hreyfingu,

    2) forvörnum gegn streitu og andlegu álagi,

    3) hollu mataræði,

    4) áfengis-, tóbaks-, og vímuefnavörnum

    5) öryggi í skólastofunni


Næring
Stuðla skal að aukinni neyslu á hollum mat og auknum skilningi á mikilvægi þess að nemendur og starfsmenn tileinki sér hollar matarvenjur.

Þetta fæst m.a. með því að:

 • boðið sé uppá fjölbreytt og hollt fæði í mötuneyti fyrir alla nemendur og starfsmenn skólans. Gæði matarins eru höfð í fyrirrúmi.
 • skoða reglulega fæðu framboð í mötuneyti með tilliti til manneldismarkmiða, ráðleggingar Landlæknisembættisins og „Handbókar um mataræði í framhaldsskólum.“
 • bjóða upp á morgunmat í mötuneyti frá kl. 7:30 til 10:00. Þetta gefur nemendum aukin tækifæri til að undirbúa sig vel undir daginn.
 • tryggja að aðgengi að drykkjarvatni sé gott.
 • veitingar á fundum taki mið af fjölbreytni og hollustu.
 • aukin sé fræðsla til nemenda um innihaldslýsingar, skammtastærðir og ýmis málefni er snúa að næringu.
 • boðið verði upp á hollustu í nemendasjoppu, ss. ávexti, hollar samlokur ofl.

Hreyfing
Hvetja skal til aukinnar hreyfingar meðal nemenda og starfsmanna  skólans ásamt því að efla vitund um gildi hreyfingar fyrir andlega og líkamlega heilsu.

Þetta fæst meðal annars með því að:

 • skólinn bjóði upp á íþróttakennslu sem hluta af námi til stúdentsprófs og annarra prófa við skólann.
 • skólinn standi fyrir og stuðli að þátttöku í almennri hreyfingu nemenda og starfsmanna s.s. framhaldsskólakeppnum og Lífshlaupi.
 • staðið sé fyrir sjálfstæðum viðburðum a.m.k. einu sinni á önn svo sem vorgöngu/haustgöngu, fjallaferð eða innanskólamóti af einhverjum toga.
 • stuðla að íþróttaiðkun nemenda með virku íþrótta/nemenda -félagi  ásamt því að bjóða upp á akademíu sem auðveldar íþróttamönnum skólans að stunda íþrótt sína með námi.
 • bjóða upp á kynningar á möguleikum til hreyfingar í samfélaginu ( e.t.v. jaðargreinar).
 • auka samstarf við íþróttafélög á svæðinu.
 • auka framboð á hreyfingu sem höfðar til stúlkna og auka þannig hlutfall stúlkna sem stundar skipulagða hreyfingu.

 

Geðrækt
Skólastarfið skal taka mið af því að hlúð sé að andlegri heilsu nemenda og starfsmanna skólans og að allir leggi sitt af mörkum til að efla góðan starfsanda í skólanum.

Þetta fæst m.a. með því að:

 • vinna gegn fordómum.
 • vinna með geðorðin 10.
 • á heimasíðu skólans sé aðgengilegt efni um leiðir til að leita sér aðstoðar ef á þarf að halda, s.s. Landlæknisembættis, SÁÁ o.fl.
 • fræðslu sé miðlað um gildi góðrar andlegrar heilsu.
 • fylgjast með forvarnarverkefnum hugarafls og Geðhjálpar og vinna með þeim.
 • stuðla að góðum skólabrag.
 • tekið sé vel á móti nýju fólki og það aðstoðað við að komast inn í skólasamfélagið (1. árs nemar, eldri nýnemar, skiptinemar og starfsfólk).
 • unnið sé markvisst gegn einelti og eineltisáætlun sé sýnileg nemendum, foreldrum og starfsfólki.
 • huga vel að uppröðun í skólastofum
 • auka fjölda brosa í skólanum J með ýmsum uppákomum (sparifatadagar, öskudagur ofl).
 • nemendur með staðfesta greiningu um geðrænan vanda mæta skilningi og sveigjanleika varðandi verkefnaskil og mætingu.

Forvarnir
Miðla upplýsingum um skaðsemi áfengis, tóbaks og annarra vímuefna til nemenda og starfsmanna, ásamt því að miðla upplýsingum um hvaða leiðir eru færar ef fólk vill hætta notkun þessarra efna.

Þetta fæst m.a. með því að:

 • því sé fylgt fast eftir að skólahúsnæðið og lóð hans sé laust við alla notkun áfengis, tóbaks og annarra vímuefna.
 • fræða nemendur um skaðsemi notkunar tóbaks, áfengis og annarra vímuefna.
 • á vef skólans séu aðgengilegar upplýsingar um skaðsemi fíkniefna og hvert sé hægt að leita eftir aðstoð sérfræðinga og stuðningsaðila, kjósi fólk að leita sér aðstoðar vegna notkunar á tóbaki eða öðrum vímuefnum.
 • nemendafélag skólans taki virkan þátt í því að hvetja nemendur til vímulauss skemmtanahalds, m.a. með „edrúpottinum.“
 • staðið sé fyrir skemmtunum án áfengis og vímuefna.

Öryggismál
Tryggja skal öryggi í skólahúsnæðinu og að öryggisáætlun skólans sé framfylgt.

 Þetta fæst m.a. með því að:

 • nemendur og starfsmenn séu upplýstir um öryggisáætlanir t.d. ef eldsvoða eða slys ber að höndum.
 • rýmiæfing verði haldin einu sinni á ári.
 • öryggis- og áhættumati sé viðhaldið og leitað sé úrbóta hið fyrsta þegar þörf er á.
 • bjóða upp á skyndihjálparnámskeið annað hvert ár.
 • sjá til þess að öryggisfulltrúi og öryggistrúnaðarmaður séu starfandi við skólann og störf þeirra séu kynnt starfsmönnum við upphaf skólaárs.

Hafðu samband

v/Tjarnarbraut
700 Egilsstaðir
Netfang: skrifstofa@me.is
Sími: 471-2500
Kt. 610676-0579