Um félagið

Síðla árs 2003 hófst undirbúningur að stofnun foreldrafélags við Menntaskólann á Egilsstöðum. Skipaður var undribúningshópur sem vann að undirbúningi félagsins og í nóvember var efnt til stofnfundar með foreldrum og kennurum þar sem Foreldra- og hollvinfélag Menntakólans á Egilsstöðum var stofnað. Í félaginu eru allir foreldrar og aðrir forráðamenn nemenda skólans, nema þeir segi sig sérstaklega úr félaginu. Félagið er jafnframt opið öðrum velunnurum skólans sem óska eftir aðild.

Félaginu er ætlað að vera samráðs- og samstarfsvettvangur foreldra/forráðamanna nemenda við Menntaskólann á Egilsstöðum. Tilgangur félagsins er meðal annars að stuðla að auknum gæðum skólastarfsins og bæta skilyrði og aðstæður nemenda. Eitt af markmiðum félagsins er að auka vitund foreldra/forráðamanna um forsjárskyldur sínar og auka stuðning þeirra og hvatningu við börn sín og námið. Félagið er sömuleiðis bakhjarl skólans og hyggst efla áhrif foreldra/forráðamanna sem hagsmunahóps um bættan hag og stöðu skólans. Þar er mikilvægt að tryggja öflugt og gott samstarf foreldra/forráðamanna og starfsfólks skólans.

Sambærileg félög hafa verið stofnuð við nokkra framhaldsskóla, en ástæðu þess má ekki síst rekja til hækkunar sjálfræðisaldurs og þar með aukinnar og lengdrar ábyrgðar foreldra. Sú ábyrgð nær meðal annars til skólagöngu og framvindu náms barnanna. Aukinn áhugi, ábyrgð og áhrif foreldra á skólastarfið og jákvæð viðhorf þeirra til náms og skólagöngu barna sinna, getur haft mikil áhrif á námsárangur og almenna velferð nemenda.  Innbyrðis samstaða foreldra/forráðamanna og áhrif þeirra í samfélaginu getur myndað mikilvægan hóp til að styðja við skólann í baráttu við bættan hag og stöðu hans og um leið bætta aðstöðu nemenda. Samstarf heimilis og skóla eflir einnig markvisst forvarnarstarf gegn neyslu áfengis og annarra vímuefna og styður við mótun á jákvæðum lífsstíl nemenda.Það er von stjórnar Foreldra- og hollvinafélags Menntaskólans á Egilsstöðum að félagið fái góðar móttökur hjá nemendum, kennurum og foreldrum/forráðamönnum. Gott samstarf þessara aðila er forsendan fyrir árangri af starfsemi félagsins og stjórnin leggur áherslu á góð og lipur samskipti. Félagið er reiðubúið til aðstoðar við verkefni á vegum nemendafélagsins eða skólans, auk þess sem félagið mun ef til vill sjálft standa fyrir verkefnum sem efla munu hag skólans og nemendanna.

 

Hafðu samband

v/Tjarnarbraut
700 Egilsstaðir
Netfang: skrifstofa@me.is
Sími: 471-2500
Kt. 610676-0579