Í dag er seinasti kennsludagur seinni haustspannar.
Þessi spönn hefur nær eingöngu verið í fjarnámi fyrir þorra nemenda en nokkrir áfangar hafa þó verið keyrðir í dagskólanum frá skólabyrjun í haust.
Nú hefjast námsmatsdagar sem standa fram á miðvikudag 16. desember.
Á þeim fer fram fjölbreytt námsmat en þess má geta að sökum Covid 19 eru öll hlutapróf á námsmatsdögum rafræn.
Heimavist skólans lokar miðvikudaginn 16. desember kl. 17:00 og opnar aftur mánudag 4. janúar kl. 17:00. Vorönn hefst síðan samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 5. janúar.
Haustútskrift verður í Valaskjálf laugardaginn 19. desember. Þar munu 35 nemendur skólans útskrifast við hátíðlega athöfn sem verður streymt á netinu.
Hægt verður að nálgast hlekk á athöfnina gegnum heimasíðu skólans, þegar nær dregur.
Vegna sóttvarnatakmarkana munu útskriftarnemendur mæta einir til athafnar ásamt starfsmönnum en reynt verður að gera athöfnina sem best úr garði þannig að fjölskyldur, vinir og velunnarar geti fylgst með heima í stofu.