Viltu efla þig með útivist og ævintýrum?
Þá er F:ire&ice eitthvað fyrir þig.
F:ire&ice - Útivist og sjálfsefling er 5 eininga útivistaráfangi við Menntaskólann á Egilsstöðum. Áfanginn er hluti af Erasmus+ ungmennaskiptaverkefni, sem unnið er í samstarfi Menntaskólans á Egilsstöðum, Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands og írsku ungmennasamtakanna YMCA.
Útivistaráfanginn hefur þá sérstöðu að megináherslur hans eru á að efla sjálfsþekkingu nemenda, trú á eigin getu, samskiptahæfni og tengsl þeirra við náttúruna og sjálfan sig.
Hugmyndafræði F:ire&ice byggir á náttúrumeðferð, reynslunámi, jákvæðri sálfræði, styrkleikaþjálfun, áskorunum og ævintýrum.
F:ire&ice felur í sér:
Öllum áhugasömum nemendum ME er velkomið að sækja um að taka þátt í verkefninu, en valið verður úr umsóknum, því verkefnið rúmar aðeins takmarkaðan fjölda þátttakenda. Þátttaka er þátttakendum að kostnaðarlausu enda er verkefni styrkt af Erasmus+
Umsóknir skal má nálgast hér. Umsóknir berist fyrir 5. september til Hildar félagsráðgjafa á netfangið hildur@me.is. Þangað má líka senda allar mögulegar og ómögulegar fyrirspurnir um verkefnið en Hildur veitir allar frekari upplýsingar með afar glöðu geði.
Hér er yfirlit yfir nokkrar algengar spurningar sem Hildur kann svar við:
Kostar þetta eitthvað fyrir þátttakendur?
Nei, Erasmus+ styrkir verkefnið þannig að ferðakostnaður og uppihald í ferðunum er greitt. Menntaskólinn fékk styrk úr Lýðheilsusjóði til að fjármagna undirbúningsnámskeiðið sem við förum í gegnum hérna heima í vetur svo það er líka dekkað. Þátttakendur gætu þó þurft að útvega sér búnað eins og gönguskó og hlý föt.
Þarf maður að vera rosa útivistartýpa og brjálað fit til að vera með í þessu verkefni?
Öhhh NEI, þátttakendur mega svo sem alveg vera fit og með útivistaráhuga, það skaðar ekki EN þetta verkefni er ekki síst ætlað fyrir þá sem vilja bæta líkamlega og andlega heilsu og við notum útivist og ýmislegt fleira til þess. Byrjum á byrjuninni og vinnum okkur upp. í löngu ferðunum okkar bæði á Íslandi og Írlandi munum við klárlega takast á við líkamlegar og andlega áskoranir en við munum undirbúa okkur vel og þess vegna er útivistarnámskeiðið hérna heima mjög mikilvægt.
Af hverju þessi áhersla á sjálfsþekkingu og allt það, af hverju ekki bara útivist?
SKO við viljum alveg sérstaklega að þetta verkefni styðji við þá nemendur sem eru að glíma við einhverskonar áskoranir í lífinu og verði til þess að þeir öðlist bætta sjálfsímynd, fái skýrari sín á eigin styrkleika, getu, tækifæri og fegurðina í lífinu. Verkefnið er sniðið að þörfum slíkra nemenda og við munum í gegnum allt verkefnið vinna mjög markvisst að þessum þáttum. Þetta er auðvitað prógramm sem gagnast öllum og það geta sannarlega allir sótt um, en við horfum alveg til þess þegar við veljum þátttakendur, að þetta geti sannarlega nýst þeim og elft þá í því sem þeir eru að takast á við í daglegu lífi. Þetta á ekki bara að vera geggjað gaman heldur líka lærdómsríkt og þroskandi.... og geggjað gaman
Hefur eitthvað svona verið gert áður?
Já heldur betur. Ég starfaði áður sem framkvæmdastýra Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands og þá tók ég þátt í margskonar Erasmus+ verkefnum. Eitt þeirra var að forma og stýra ungmennaskiptaverkefni með áherslu á útivist og hreyfingu með frábærum írsku ungmennasamtökunum YMCA. Þar varð F:ire&ice til og 2016 tók hópur austfirskra ungmenna á móti hópi írskra ungmenna hér á Egilsstöðum og eyddum með þeim ævintýralegri viku, ýmist á fjöllum eða lálendi. Þar sem unnið var með hreyfingu, heilsueflingu, útivist og menningu
Vorið 2017 fórum við svo með austfirska hópinn okkar og hittum vini okkar í Cork á Írlandi, þar vörðum við viku við leiki og störf sem öll lutu að sömu áhersluþáttum og í fyrri ferðinni á Íslandi.
Þetta var ótrúlega skemmtilegt verkefni og þarna sáum við ungt fólk sannarlega blómstra við aðstæður sem eru alla jafna ekki í boði í t.d. almennu skólakerfi.
Við skipuleggjendur verkefnisins lærðum mikið á þessari reynslu og ákváðum strax að þetta vildum við gera aftur. Þau fyrirheit eltu mig hingað, þegar ég skipti um starf og kom í ME. Eftir miklar pælingar um áherslur og útfærslur, endalaus skýrslu- og styrkjabeiðnaskrif þá erum við komin með nýtt F:ire&ice verkefni sem byggir á grunni þess gamla en við hefur þó bæst ýmislegt nýtt s.s. áhersla á náttúrumeðferð, styrkleikaþjálfun, ýmis verkfæri úr jákvæðri sálfræði og fleira og fleira.
Síðustu tvö ár hefur verið boðið uppá svona útivistarnámskeið hér í ME með frábærum árangri. Við komumst reyndar ekki til Írlands vegna Covid-19 en lærðum alveg ótrúlega margt um sjálf okkur, náttúruna og lífið í þessum áfanga. Upplifðum allskonar áhugavert, skógargöngur, skauta, gönguskíði, varðeldakósý, rathlaup, allskonar náttúrumeðferðarpælingar, fjallgöngur, fórum í Óbyggðasetrið og enduðum á því að taka 5 daga óbyggðaferðir annarsvegar um Víknaslóðir og hinsvegar um hálendi Austurlands báðar ferðir voru gjörsamlega mögnuð upplifun!
Fær maður einingar fyrir að taka þátt?
JÁ þetta verkefni er metið til 6 eininga hér í ME.
Námskeiðið í ár er tvískipt annarsvegar útivistarhlutinn sem er mun yfirgripsmeiri og gefur fimm einingar og hinsvegar námskeiðið Loftslag & listir sem fléttast inn í nú á haustönn og gefur eina auka einingu.
Umsagnir nemenda í útivistarnámskeiðinu
Námskeiðið er í raun þriggja laga. Ysta lagið felst í því að hópur einstaklinga úr skólanum hittist reglulega og hreyfir sig (skemmtir sér) saman utandyra. Miðju lagið felst í því að hópurinn (sem þekkist annars frekar takmarkað) kynnist vel og lærir á hvort annað og þaning eykur samskipta- og samvinnuhæfileika sína. Innsta lagið (sem mætti ef til vill telja það mikilvægasta) er að einstaklingarnir dýpka skilning sinn á sjálfum sér og læra á styrk- og veikleika sína ásamt því að læra að nota náttúruna sem hjálpatæki í erfiðum aðstæðum/hugsunum. Lögin fléttast síðan saman og úr verður skemmtilegt, en krefjandi og erfitt, ferðalag.
Í þessum áfanga færðu bæði hreyfingu sem eykur gleði og gaman. Einnig lærir maður að svara flóknum spurningum sem munu styrkja þig fyrir framtíðina. Þú lærir að treysta hinum í áfanganum og gerir allskonar skemmtilegar traust æfingar eða aðrar æfingar sem styrkja hópinn í heild.
Ég lærði að það er mun betra að hugsa í lausnum frekar en í hindrunum. Þetta er eitthvað sem ég veit að mun nýtast mér vel í lífinu.
Ég fór að hreyfa mig meira og sjá hreyfingu sem góðan hlut en ekki eitthvað slæmt sem ég nennti alls ekki að gera.
Mér hefur fundist gaman í þessu og þó maður vill stundum gefast upp í erfiðum göngum þá er hópurinn þarna til að hjálpa manni að halda áfram (og maður sjálfur að hjálpa öðrum)
Þú kynnist fólk sem gæti verið að glíma með svipuð vandamál og þú sjálfur, finnur eitthvað sameiginlegt með fólk sem þú myndir aldrei hafa grun um að þau væri með svipuð vandamál og erfiðleika. Einnig gefur námskeiðið áskorun með að svara spurning sem maður myndi aldrei detta í hug sjálfur, sem hjálpar við að skilja sjálfan sig betur.
Ég lærði margt og mikið en það sem stendur upp úr er að hugsa og hlusta áður en ég tala. Ekki bæla niður en bara passa hvað ég segi. Ég á það til að vera mikið en ég kann að temja það núna. Ég uppgötvaði ekki þennan styrkleika núna en ég gat notað hann, ég notaði leiðtoga styrkleikann minn og hann hjálpar til í samvinnu.
Á léttari nótum þá lærði ég einnig að ég lifi fyrir útiveru í hvaða formi sem hún er. Skemmtilegast finnst mér sennilega að labba úti í sveit (ekki á möl eða malbiki) og að bardúsa eitthvað (mála, smíða, setja eitthvað drasl saman etc.). En sko já þetta mun hafa mikið áhrif á hvernig ég lifi lífinu. Mikil. Hugsa að ég verði óþolandi á endanum. Mig langar í kajak!
Útivera er líka orðin að go-to hlut þegar að mér líður illa og þarf útrás. Í stað þess að kýla veggi (hef prófað það) eða berja handlóði í hausinn minn (prófað það líka) þá er útiveran komin í staðinn. Hún hlýtur að vera heilnæmari.
Að njóta náttúrunnar meira, að vera ekki alltaf að hanga heima heldur fara og skoða það sem er í kringum mig. Maður hefur bara eitt líf, um að gera að nýta þennan tíma í að prófa hluti þótt þeir virðast krefjandi.