Litið er á nám í skólanum eins og hverja aðra vinnu sem sinnt er af alúð og samviskusemi. Nemendum ber að sækja allar kennslustundir stundvíslega.
Fjarvistastig og skráning
Fjarvistir í kennslustundum og seinkomur eru skráðar daglega og færðar í fjarvistabókhald skólans, Innu. Gefið er 1 stig fyrir fjarveru í tíma og 0,33 stig fyrir að mæta of seint. Seinkoma telst ef nemandi mætir eftir að skráning mætingar hefur farið fram. Fjarvist er skráð ef nemandi er ekki mættur þegar 1/3 kennslustundar er liðinn. Hafi kennari ekki mætt í kennslustund innan 10 mínútna frá upphafi tíma skulu nemendur leita skýringa á skrifstofu skólans.
Nemendur fylgjast sjálfir með viðveruskráningu í Innu og skulu, ef þörf krefur, gera athugasemdir fyrir kl. 16 á mánudegi vegna viðveruskráningar liðinnar viku.
Veikindi
Forráðamenn ólögráða nemanda skrá veikindi barns í Innu fyrir kl. 10 að morgni hvers veikindadags. Nemendur sem orðnir eru lögráða skrá veikindi sín í Innu fyrir kl. 10 að morgni hvers veikindadags. Veikindaskráning telst samþykkt þegar skrifstofustjóri hefur staðfest hana í Innu.
Langvarandi og þrálát veikindi þarf að staðfesta með læknisvottorði.
Ef nemandi/forráðamaður skráir veikindi hluta úr degi telur dagurinn með sem veikindadagur í Innu.
Fari veikindadagar annar fram yfir 6 daga eru færðar fjarvistir á nemanda nema að veikindi séu staðfest með læknisvottorði eða veikindi staðfest af skólahjúkrunarfræðingi sem er hægt að hitta í skólanum í hverri viku á miðvikudögum kl. 13:00-15:00 á skrifstofu skólans. Netfang skólahjúkrunarfræðings er bjorg.eythorsdottir@hsa.is.
Forföll vegna veikinda eru skráð með auðkenninu V og telja kennslutímar veikindadags ekki til lækkunar mætingarhlutfalls.
Leyfi
Hægt er að veita nemendum tímabundið leyfi frá skóla vegna brýnna erinda. Ef um eins dags leyfi er að ræða er haft samband við skrifstofu skólans. Aðeins skólameistari eða staðgengill hans veita lengri leyfi en það. Foreldrar nemenda undir 18 ára aldri sækja um leyfi fyrir börn sín. Eldri nemendur sækja sjálfir um leyfi. Nemendur sem koma langt að geta sótt um leyfi ef um raunverulega ófærð er að ræða.
Ekki er veitt leyfi hluta úr degi vegna viðvika sem nemandi þarf að sinna. Nemandi hefur 10% fjarvistasvigrúm til að mæta slíkum erindum. Undantekning frá þessu er þegar sinna þarf heilbrigðiserindum. Leyfi er þá veitt eftir á gegn komukvittun.
Skólaráð setur verklagsreglur um leyfi.
Skólasóknareinkunn
Einkunn er gefin fyrir skólasókn þegar tekið hefur verið tillit til lögmætra fjarvista (leyfa og veikinda) og hún skráð þannig í ferla nemenda. Skólasóknareinkunn er gefin í heilum tölum eftir mætingarhlutfalli:
98,50-100,0% 10
97,00-98,49% 9
95,50-96,99% 8
94,00-95,49% 7
92,00-93,99% 6
89,50-91,99% 5
85,00-89,49% 4
80,00-84,99% 3
75,00-79,99% 2
00,00-74,99% 1
Mæting í einstaka áfanga og réttur til próftöku
Réttur til próftöku ákvarðast af mætingu, verkefnaskilum og annarri vinnu á spönninni. Skilyrði fyrir próftökurétti skulu koma fram í kennsluáætlun sem birt er nemendum í upphafi annar/spannar. Heimilt er í einstökum áföngum að skilgreina lágmarksviðveru nemenda í áfanga (stig/prósenta) og skal það koma fram í kennsluáætlun.
Úrsagnir
Fyrstu viku spannar á nemandi þess kost að breyta stundatöflu sinni án þess að úrsagnir séu skráðar. Eftir það eru úrsagnir skráðar í námsferil nemanda.
Ákveði nemandi að hætta í áfanga eftir að töflubreytingum lýkur skráir hann sig úr áfanganum skriflega á þar til gert eyðublað. Nemandi ræðir við námsráðgjafa áður en úrsögn tekur gildi og fær uppáskrift hans á úrsagnareyðublaðið. Því næst kemur námsráðgjafi úrsögn til áfangastjóra. Hún tekur gildi frá og með þeim degi sem námsráðgjafi undirritar hana og eru fjarvistir skráðar þangað til.
Eftir að auglýstur frestur til úrsagna er liðinn fær nemandi sem hættir í áfanga skráð fall í námsferil.
Viðvaranir og viðurlög
Hver önn skiptist í fjögur fjarvistatímabil. Ef heildarmæting nemanda frá upphafi annar er undir 90% í lok tiltekins fjarvistatímabils fær hann skriflega viðvörun. Ef nemandi er aftur undir 90% mætingu í lok fjarvistatímabils síðar á önninni fær hann ekki að halda áfram námi nema gerður sé sérstakur mætingasamningur milli nemandans og skólans. Litið er á það sem úrsögn úr dagskóla ef nemandi stendur ekki við mætingasamning. Falli nemandi á mætingu á tiltekinni önn er skólanum ekki skylt að endurinnrita hann í dagskóla næstu spönn á eftir.
Ef nemandi í dagskóla mætir ekki í skólann í tvær vikur samfellt án þess að gera grein fyrir sér og engin skýring fæst á fjarverunni er skólanum heimilt að skrá hann úr námi.
Uppfært 6.11.2017
Meðferð mála
Viðvaranir/áminningar til nemenda vegna skólasóknar þeirra skulu vera skriflegar og virða ber andmælarétt nemenda. Forráðamönnum nemenda undir 18 ára aldri skal senda afrit skriflegra viðvarana. Skólameistara er heimilt að skilyrða inntöku nemenda í skólann með því að gera við þá námssamning með öðrum skilyrðum um skólasókn þeirra en gilda í þessum almennu skólasóknarreglum, t.d. við inntöku nemenda á framhaldsskólabraut eða inntöku nemenda sem hafa fallið á fyrri önn/önnum.
Undanþágur og verklagsreglur
Skólaráð getur heimilað frávik frá reglum þessum vegna sérstakra aðstæðna nemanda. Það setur nánari verklagsreglur vegna framkvæmda á skólasóknarreglum.