Markmið starfsmannastefnunnar er að skólann skipi áhugasamt, vel menntað og traust starfsfólk sem hefur velferð nemenda og skólans að leiðarljósi. Einnig að stjórnun og vinnutilhögun sé þannig að starfsmenn njóti jákvæðs aðhalds, eftirlits, hróss og hvatningar. Stjórnendur og starfsfólk vinna saman að framsæknu skólastarfi og taka virkan þátt í þróunarstarfi. Stefnan stuðlar að jafnrétti innan skólans, góðum starfsanda, öflugu samstarfi starfsfólks og umræðu um fagleg málefni. Lögð er áhersla á að hæfileikar hvers starfsmanns fái notið sín. Stjórnendur bera ábyrgð á því að stefnunni sé framfylgt.
Gildi skólans eru gleði, virðing og jafnrétti.
Laus störf eru auglýst og ráðið í þau samkvæmt gildandi lögum og reglum. Ákvörðun um ráðningu í starf skal vera rökstudd og byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Við ráðningar skal ávallt hafa hliðsjón af gildandi jafnréttisáætlun. Haft er samráð við skólanefnd þegar ráðið er í stöður og gerður er skriflegur ráðningarsamningur um öll störf í skólanum. Ávallt er tekið vel á móti nýjum starfsmönnum og ákveðnu verklagi fylgt við að setja þá inn í störf sín.
Atvinnuöryggi starfsmanna er haft í fyrirrúmi. Skólinn leggur áherslu á að bjóða starfsfólki sínu góð launakjör, starfsskilyrði og starfsaðstöðu svo hann geti ráðið til sín og haldið hæfu starfsfólki. Stjórnendur sjá til þess að starfsmenn fái hvatningu og umbun fyrir vel unnin störf. Lögð er áhersla á gott samstarf skólans og stéttarfélaga starfsmanna.
Allt starfsfólk hefur jöfn tækifæri til framgangs í starfi með tilliti til starfshæfni einstaklingsins en ekki kynferðis, aldurs eða annarra aðgreinandi þátta eins og tekið er fram í lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði nr 86/2018. Starfsfólk virðir jafnréttisstefnu skólans og vinnur í anda hennar. Skólinn er með vottað jafnlaunakerfi.
Skólinn býður upp á örugga og heilsusamlega vinnuaðstöðu og vill sporna við óhóflegu vinnuálagi starfsfólks. Skólinn leitast við að skapa starfsfólki sínu aðstæður til að samræma þær skyldur sem starfið og fjölskyldan leggja því á herðar. Skólinn tekur eftir megni tillit til óska starfsmanna um vinnutíma og starfshlutfall.
Skólastjórnendur veita starfsmanni samtal að minnsta kosti einu sinni á ári. Reglubundin starfsmannasamtöl eru vettvangur samræðu milli starfsmanna og stjórnenda. Tilgangur samtalanna er að stuðla að velferð starfsmanna, gæðastjórnun og bættum starfsárangri sem og gagnkvæmri upplýsingamiðlun. Samtölunum er ætlað að auðvelda starfsmönnum og stjórnendum að ná settum markmiðum. Starfsmannasamtöl eru einnig mikilvæg til að skapa gagnkvæmt traust. Mikilvægt er að starfsmannasamtöl séu vandlega undirbúin, þeim sé fylgt eftir, úrræði séu skipulögð og trúnaðar sé gætt á öllum stigum.
Skólinn hvetur starfsmenn til að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl og stuðla þannig að bættri líðan og heilsu. Í þeim tilgangi býður skólinn starfsmönnum upp á líkamsrækt og niðurgreitt fæði í mötuneyti skólans sem leggur áherslu á hollan og góðan mat. Skólinn býður starfsmönnum upp á samgöngusamning sem stuðlar að heilsueflingu og vistvænum ferðamáta. Skólinn hefur innleitt græn skref í ríkisrekstri og sett sér loftslagsstefnu sem miðar að því að minnka kolefnisfótspor skólans. Skólinn hefur sett sér heilsustefnu.
Mikilvægt er að góður starfsandi sé hluti af menningu skólans. Til að svo sé þurfa allir starfsmenn að leggja sitt af mörkum, meðal annars með því að sýna hver öðrum gagnkvæma virðingu og traust, stuðla að jákvæðum samskiptum og vera nemendum skólans til fyrirmyndar. Lögð er áhersla á að starfsfólki líði vel, það upplifi sig sem hluta af heild og geti vaxið í starfi. Einelti og kynferðisleg áreitni eru ekki liðin. Gróska starfsmannafélagsins Búbótar er mikilvæg og styður skólinn starfsemi þess með beinum hætti.
Starfsfólk er hvatt til að afla sér þekkingar, sækja námskeið og mennta sig á hvern þann hátt sem að gagni má koma. Hægt er að sækja um að skólinn greiði kostnað við námskeið eða fundi sem ekki fást styrkir til úr sjóðum starfsmanna sjálfra. Skólinn verður við því eins og fjármagn leyfir hverju sinni. Starfsfólk leitast við að þjálfa sig til nýrra og breyttra verkefna svo sem vegna faglegrar og tæknilegrar þróunar. Kennarar fá svigrúm til að sinna tilrauna- og þróunarstarfi, námsefnisgerð og nýjungum eins og kostur er. Skólinn hefur sett sér endurmenntunarstefnu.
Við ákvörðun um starfslok er farið eftir gildandi lögum og reglugerðum. Stjórnendur undirbúa starfslok vandlega og eiga starfslokasamtöl við starfsfólk til að tryggja að þekking haldist innan vinnustaðarins og til að greina ástæður þess að starfsfólk lætur af störfum. Stefnt er að því að starfslok séu sem farsælust.
Skólanum er stjórnað á nútímalegan og lýðræðislegan hátt þar sem upplýsingastreymi er virkt og starfsmenn eiga viðeigandi hlutdeild í ákvarðanatöku. Ákvörðunarvald og ábyrgð stjórnenda gagnvart starfsmönnum eru vel skilgreind og starfsmönnum ljós. Ákvarðanataka miðast við gildandi verklagsreglur skólans. Stjórnendur standa vörð um lögbundinn rétt starfsmanna. Stjórnendur leggja áherslu á jafnrétti, jákvætt viðhorf til starfsmanna, samráð og víðtæka sátt um málefni þeirra og störf innan skólans.
Samþykkt af Skólafundi 26. maí 2015
Endurskoðað vorið 2022 og samþykkt á starfsmannafundi 24.5.2022