Félagsráðgjafi ME er til taks fyrir nemendur sem glíma við ýmiskonar persónulegar áskoranir, áföll, vanlíðan eða vilja efla sjálfstraust og vinna með styrkleika sína. Félagsráðgjafi ME er einnig tengiliður farsældar innan skólans.
HELGA ÞORLEIFSDÓTTIR
Félagsráðgjafi (helga@me.is)
Viðvera mán, þri, fimmt og fös frá kl: 8:00-16:00.
Bóka má tíma í gegnum Microsoft Bookings, tölvupóst eða með því að kíkja við.
Helga í 5 jákvæðum lýsingarorðum:
Velviljuð, mannelsk, skapandi, þrautseig og hláturmild.
Lífsmottó Helgu:
Njóttu lífsins meðan þú getur og þakkaðu fyrir hvern dag sem lífið gefur þér.
Lífsgildi Helgu:
Lífsgleði, þakklæti, þrautsegja, sátt og bjartsýni.
Hér fyrir neðan eru dæmi um aðstæður sem getur verið hjálplegt að leita aðstoðar með. Í þessum aðstæðum og öðrum getur verið dýrmætt að setjast niður og ræða málin í trúnaði, fá speglun og skilning.
Viltu bæta andlega líðan þína?
Í lífinu getum við mætt ýmsum áskorunum, upplifað áföll, missi eða sorg. Stundum líður okkur illa en vitum ekki hvers vegna. Félagsráðgjafi getur stutt nemendur sem glíma við vanlíðan af ýmsu tagi og jafnframt vísað á leiðir innan helbrigðiskerfisins sé þess þörf.
Hafa orðið erfiðar breytingar í lífi þínu?
Í lífinu getum við mætt ýmsum áskorunum, upplifað áföll, missi eða sorg. Stundum líður okkur illa en vitum ekki hvers vegna. Félagsráðgjafi getur stutt nemendur sem glíma við vanlíðan af ýmsu tagi og jafnframt vísað á leiðir innan helbrigðiskerfisins sé þess þörf.
Ertu að upplifa ofbeldi af einhverju tagi? Eða ertu ekki alveg viss hvort það sem þú upplifir sé ofbeldi og langar að átta þig á því?
Ofbeldi getur verið allskonar, líkamlegt, andlegt, kynferðislegt, stafrænt, og getur átt sér stað í ýmsum aðstæðum og af hálfu allskonar fólks, sem jafnvel stendur okkur mjög nærri. Afleiðingar ofbeldis geta verið margskonar, djúpstæðar og langvarandi. Þess vegna er mikilvægt að leita sér stuðnings og aðstoðar bæði til að komast út úr ofbeldisaðstæðum eða -sambandi og eins til að vinna með afleiðingar þess. Félagsráðgjafi getur stutt þig við hvoru tveggja.
Stundum er maður ekki alveg viss hvort það sem maður upplifir er ofbeldi eða hvort þetta sé kannski bara allt manni sjálfum að kenna eða bara eitthvað í hausnum á manni. Þá getur verið mjög dýrmætt að setjast niður og ræða málin í trúnaði, fá speglun og skilning og félagsráðgjafi ME er þar til taks.
Glímir þú við félagslega erfiðleika, s.s. veikt stuðningsnet eða fátækt?
Það getur verið ansi snúið að fara í gegnum krefjandi nám og ekki síður lífið sjálft án þess að eiga heilbrigt og gott stuðningsnet í kringum sig. Ýmislegt getur haft áhrif á aðstæður okkar s.s. veikindi, félagslegir erfiðleika, fjárhagsáhyggjur og margt annað. Félagsráðgjafi hefur góða yfirsýn yfir úrræði og leiðir t.d. í velferðarkerfinu og getur aðstoðað við að finna lausnir.
Ertu að glíma við lágt sjálfsmat eða brotna sjálfsmynd og langar að upplifa sjálfan þig á jákvæðari hátt?
Það er margt sem við förum í gegnum á lífsleiðinni sem getur molað úr sjálfsmyndinni okkar og fengið okkur til að efast um eigin getu og ágæti. Það getur verið erfitt að vera sinn versti gagnrýnandi og vera sífellt að kljást við niðurrifshugsanir og vantrú á eigin getu. Félagsráðgjafi getur aðstoðað við að efla sjálfsþekkingu, unnið með styrkleika og sjálfsalúð og- mildi.
Viltu bæta samskipti þín við aðra? Áttu í samskiptaerfiðleikum eða finnst erfitt að kynnast nýju fólki eða setja öðrum mörk í samskiptum?
Samskipti geta verið flókin og margslungin og margt sem getur haft áhrif á gæði þeirra og getu hvers og eins til að eiga heilbrigð og jákvæð samskipti, setja mörk og finna hugrekki og leiðir til að kynnast nýju fólki. Ef þig langar til að velta þessum þáttum fyrir þér, átta þig betur á félagslegum styrkleikum þínum og hvað það er sem hindrar þig í að nýta þá til fulls. Eða ef þú þarft að átta þig betur á hvar mörkin þín liggja og hvernig þú getur sett öðrum mörk í samskiptum, þá getur félagsráðgjafi aðstoðað þig.
Ertu með spurningar um náin sambönd, kynlíf, kynsjúkdóma, ótímabæra þungun eða kynferðisofbeldi?
Náin sambönd, kynlíf og allt sem því fylgir getur verið óskaplega dásamlegt, en við vitum líka að stundum er það alls ekki þannig og ýmislegt getur endað öðruvísi en til stóð. Þá getur verið gagnlegt að ræða málin í trúnaði og leita leiða um næstu skref.
Kynferðisofbeldi er útbreiddur og alvarlegur vandi sem getur haft mikil áhrif á líðan og virkni þeirra sem fyrir verða. Það er því mikilvægt að leita sér aðstoðar og vinna með þær beinu og óbeinu afleiðingar sem eftir sitja.
Ertu með vangaveltur um kynhneigð og litróf regnbogans?
Ertu að velta fyrir þér kynhneigð eða ert með pælingar um margbreytileikann? Félagsráðgjafi skólans þekkir ágætlega til þessara þátta og starfar að auki í góðu samstarfi við Hinsegin Austurland, 78 samtökin og fleiri samtök og fagaðila regnbogans.
Ertu að glíma við áfengis- eða fíkniefnavanda eða ertu aðstandandi einhvers sem glímir við slíkt?
Fíknisjúkdómar eru flóknir og snerta aðstandendur ekki síður en þá sem glíma við fíkn. Vanmáttur, reiði, meðvirkni og áhyggjur eru t.d. algengar tilfinningar aðstandenda. Hvort sem þú hefur áhyggjur af eigin neyslu eða einhvers sem stendur þér nærri, getur verið gagnlegt að ræða við félagsráðgjafa um málið til að spegla líðan eða fá upplýsingar um úrræði og leiðir innan heilbrigðis- og velferðarkerfsins.
Finnst þér gott að fá hvatningu og geta spjallað um það sem þér liggur á hjarta þann daginn?
Það þarf ekkert allt að vera í steik til að spjall við félagsráðgjafa eigi rétt á sér. Það má líka bara koma og spjalla um daginn og veginn, bera upp spurningar og vangaveltur eða fá smá speglun og pepp.
Langar þig að fræðast um einhverfurófið, eða þekkir einhvern sem er með einkenni á einhverfurófi?
Félagsráðgjafi ME hefur sérhæfingu og þekkingu á einkennum einhverfu og getur spjallað við þig um einhverfu óskir þú eftir því.
Ertu foreldri nemanda og hefur áhyggjur af líðan, félagslegri eða námslegri stöðu viðkomandi?
Við viljum gjarnan vera í góðu samstarfi við foreldra og þeim er alltaf velkomið að leita til okkar varðandi áhyggjur eða vangaveltur sem kunna að kvikna á skólagöngunni.