Meginhlutverk Menntaskólans á Egilsstöðum er kennsla á framhaldsskóla-, starfs- og bóknámsbrautum til stúdentsprófs eftir áfanga- og fjölbrautakerfi. Hann starfar samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008. Skólinn stuðlar að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Stefna hans er að tryggja breiðum hópi fólks tækifæri til náms með fjölbreyttu námsframboði, kennsluháttum og námsmati ásamt persónulegri þjónustu, öflugu fjarnámi og samstarfi við aðra skóla.
Skólinn býr nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Grunnþættir menntunar og lykilhæfni fléttast inn í allt skólastarfið. Leitast er við að efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust, umburðarlyndi og samskiptahæfni nemenda. Nemendur þjálfast í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti, gagnrýninni hugsun og að setja sér markmið. Einnig eflir skólinn færni nemenda í íslensku máli, kennir þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetur til þekkingarleitar og upplýstrar umræðu. Skólinn ýtir undir andlegt og líkamlegt heilbrigði nemenda og stuðlar að aukinni þekkingu þeirra á umhverfi sínu og virðingu fyrir því. Lögð er áhersla á samþættingu námsgreina.
Gildi Menntaskólans á Egilsstöðum eru gleði, virðing og jafnrétti. Þau voru valin af nemendum og starfsmönnum skólans vorið 2019. Gildin eru leiðarljós í skólastarfi ME. Gildum skólans er gert hátt undir höfði með sérstökum vikum þar sem lögð er meiri áhersla á þau en á öðrum tímum skólaársins.
ME leggur metnað sinn í að vera framsækinn og öflugur framhaldsskóli.
Uppfært 18.4.2020