Menntaskólinn á Egilsstöðum var settur í 46. sinn í morgun. Jóney Jónsdóttir staðgengill skólameistara setti skólann, en það er í fyrsta skiptið sem kona setur skólann í 45 ára sögu hans. Jóney lagði áherslu á gildi skólans; gleði, virðingu og jafnrétti og að þau ættu að endurspeglast í öllu starfi hans. Þá sagði hún frá föðursystur menntaskólavinkonu sinnar sem notaði alltaf orðin "til lífs og gleði" því hún var svo glöð að húsið fylltist af lífi á hverju hausti. Sama tilfinning er í ME þegar nemendahópur hvers hausts mætir í hús. Sannarlega til lífs og gleði.
Fjöldi dagskólanemenda þetta haustið er um það bil 190 talsins, þar af 67 nýnemar. 80 nemendur munu búa á heimavistinni í vetur og öll herbergi eru nýtt. Skólinn býður einnig upp á öflugt fjarnám en um 280 fjarnemendur eru skráðir í nám. Starfsfólk skólans leggur sig fram um að veita nemendum góða menntun og lætur sér annt um nemendurna. Leiðsagnarnám hefur einkennt kennsluhætti í ME um árabil og verður áfram. Áherslan er þá á nám nemandans þar sem kennarinn vinnur að því að kveikja áhuga nemenda, hvetja til umræðu og gefa endurgjöf jafn óðum þegar nemendur eru í verkefnavinnu sinni.
Nemendur voru hvattir til að nýta tímann sinn vel í námi og ekki síður að vera virk í félagslífi, sem er afar blómlegt í ME.
Hlökkum til samstarfsins á komandi vetri.