Brautskráning stúdenta frá Menntaskólanum á Egilsstöðum fór fram í dag við hátíðlega athöfn í Hótel Valaskjálf. Í heildina útskrifaðist 51 nemandi, 18 af félagsgreinabraut, 7 af listnámsbraut, 6 af náttúrufræðibraut, 19 af opinni braut, 1 af starfsbraut og 1 með viðbótarnám til stúdentsprófs. 38 nemendur mættu til að veita skírteini sínu viðtöku en 13 komust ekki. Hluti af þeim nemendum sem útskrifuðust kláruðu námið í fjarnámi, en fjarnám við ME hefur verið mjög vinsælt síðustu ár.
Við athöfnina komu fram auk Bergþóru áfangastjóra og Árna skólameistara nokkrir nemendur og fluttu tónlistaratriði. Eitt af tónlistaratriðunum var lag og texti eftir þá Sigurð Ingólfsson fyrrum kennara við ME og Magnús Helgason sem var kennari við skólann, en lést í vetur eftir erfið veikindi. Aron Már Leifsson spilaði á gítar og Dögun Óðinsdóttir söng lagið "Þegar snjóar" með sérstakri kveðju til Magnúsar heitins. Aðrir flytjendur voru þær Krista Þöll Snæbjörnsdóttir og Hekla Pálmadóttir.
Sebastían Andri Kjartansson flutti ræðu nýstúdents og endaði hana á skemmtilegu ljóði eftir þá feðga. Hér er það
ME árunum okkar er lokið
allir til hamingju- því stóðust þið rokið
þó færi oft gæfist þá alls ekki strokið
Ég segja vil meira og aðeins því dokið
Í hátíðarsalnum við settumst á stóla
tíma oft eytt í að garga og góla
Þegar við kveðjum loks þennan skóla
Flest okkar söknum við Árna Óla
Hér lýkur okkar ljúfu árum
leið og glöð oss sé.
Við keðjum þig með tregatárum
Takk fyrir okkur ME.
Við óskum öllum nýstúdentum hjartanlega til hamingju með þessa vörðu í lífinu og óskum þeim velfarnaðar í lífinu.
Myndir úr athöfninni verða aðgengilegar fljótlega hér á me.is