8 leiðir að betri tímastjórnun

Þú getur bætt færni þína í tímastjórnun!

Við könnumst flest við ströggl og glímu við tímann—upplifunina að við séum með of mörg verkefni í gangi, okkur skorti tíma til að vinna þau og vitum kannski ekkert hvar við eigum að byrja. Þegar við erum á þeim stað, er kjörið tækifæri að stalda við og skoða færni okkar í tímastjórnun. 

Í rauninni er orðið tímastjórnun svolítið villandi orð þar sem við stjórnum ekki tímanum. Við höfum í grunninn öll jafn mikinn tíma í sólarhringnum, enginn meira—enginn minna. Við hinsvegar stjórnum því hvernig við nýtum tímann, hvað við veljum að gera og hvað ekki, í hvaða röð við vinnum og hversu mikla vinnu við leggjum í hlutina.

Tímastjórnun, eins og önnur færni og styrkleikar, er eitthvað sem við getum þjálfað okkur í. Ef þig langar að efla þig í tímastjórnun þá gæti verið gagnlegt fyrir þig að skoða eftirfarandi punkta og velta fyrir þér hvar þú gætir bætt við þig þekkingu og færni. Mundu bara að það tekur tíma að læra nýja hluti og tileinka sér nýjan vana og við verðum ekki meistarar í einhverju bara af því að okkur langar það. Við þurfum þjálfun. Svo þolinmæði og þrautseigja eru lyklarnir í þessari vinnu eins og annarri. 

  1. Sjálfsþekking

Horfðu inn á við með hreinskilni og auðmýkt. Hvar liggur raunverulegur áhugi þinn, hver eru gildi þín, hverjir eru styrkleikar þínir, veikleikar, hæfileikar og færni? Hvernig geturðu nýtt þér þessa vitnesku til að efla þig í námi og starfi? Oft getur hjálpað að spyrja sig eftirfarinna spurninga:

  • Hversu mikið á skalanum 1-10 ertu að leggja þig fram í náminu? Ertu sátt/ur með þitt framlag? Ef ekki hvað þarftu að gera til að breyta því? Hvernig ætlarðu að fara að því að breyta því?
  • Ertu að nýta fagtímana tímann í skólanum vel í að tileinka þér námsefnið og verkefnavinnu? Ef, ekki - hvað veldur að það tekst ekki hjá þér? Hvernig gæturðu farið að því að nýta þá betur? 
  • Hvar, hvernig og hvenær finnst þér gott að læra (vinna jafnvel tiltekin verkefni eins og lesa, hlusta, reikna, skrifa)?
  • Hvaða þættir draga úr einbeitingu hjá þér / hvað hjálpar þér að halda einbeitingu?
  • Ertu á braut sem passar þínu áhugasviði?
  • Upplifir þú þig við stjórnvölinn í náminu þínu? Veistu hvar þú ert stödd/staddur/statt á námsferlinum þínum og hvað þú átt eftir?

 2. Skýr markmið

Settu þér SMART markmið í takt við gildi þín og stefnu. Passaðu að markmiðin séu þín og raunverulega fyrir þig. Hvert vilt þú að þín leið liggi? Hverjar eru vörðurnar/skammtímamarkmiðin á leiðinni þangað? Ígrundaðu reglulega stöðuna og markmiðin í takt við hana. Hvernig veistu t.d. að þú ert á réttri leið? Með skýrum og raunhæfum markmiðum er auðveldara að sjá tilganginn með erfiðum (og stundum leiðinlegum) verkefnum sem krefjast mikillar vinnu af þér. Þú skipuleggur þig svo og forgangsraðar út frá þínum markmiðum. 

   3. Yfirsýn

Finndu þína leið til að hafa góða yfirsýn yfir öll þín verkefni og athafnir, t.d. með to-do listum, áætlunum, dagbókum eða skiplagsforritum. Haltu utanum öll verkefnaskil og það sem þú þarft að passa upp á að gera og klára fyrir utan skóla, s.s. eins og hvenær þú átt að mæta á æfingar, í vinnu, fara til læknis o.s.frv. Ekki vera með of marga lista, reyndu að halda öllu á einum stað. Hér má finna dæmi um leiðir sem gætu hentað.  

   4. Forgangsröðun

Forgangsraðaðu verkefnum: notaðu merki, númer, stafi eða settu verkefni upp í forgangsröðunarkassa. Tryggðu að meirihluti tímans þíns fari í mikilvægustu verkefnin á hverjum tíma, þ.e. að það sem þú ert að gera sé örugglega að færa þig nær markmiðum þínum. Hér þarftu líka að staldra við og skoða aðra þætti utan námsins. Í hvað ertu raunverulega að eyða tímanum? Ertu að nýta verkefnatímana vel? Ertu að vinna mikið? Ef svo er þarftu þess? Ef það er mikið að gera hjá okkur þá þurfum við oft að leggja minni áherslu á eitthvern hlut/verkefni eða jafnvel hreinlega að ákveðs að sleppa einhverju. Þá er mikilvægt að hafa forgangsraðað vel svo þú sért ábyggilega ekki að sleppa því sem er mikilvægt. 

   5. Skipulag - verkefni

Ekki bara fókusa á hvenær þú átt að skila verkefnum heldur hvenær þú ætlar að byrja á verkefnum og skráðu það niður! Brjóttu stór verkefni niður í búta, planaðu vinnulotur fyrir ákveðin verkefni/búta og taktu skipulagðar pásur á milli. Fókusaðu á eitt verkefni í einu. Ef það er of yfirþyrmandi - þá einn bút, eina efnisgrein eða jafnvel eina setningu. Nýttu þér námstækniaðferðir sem henta þér og temdu þér aðferðir sem þú finnur að auka afköst og skerpa á fókus.

6. Skipulag - umhverfi

Skipulegðu gögnin þín vel eins og möppukerfi í tölvunni (best að vista beint á Menntaskýið). Passaðu að hafa lýsandi nöfn á verkefnum sem þú vistar, svo gögnin þín týnist ekki í "documenta-súpu". Þegar þú ert að læra - hugaðu þá að líkamsstöðu og lýsingu. Hafðu það sem þú þarft í kringum þig, ekki neitt óþarfa. Lokaðu t.d. óþarfa flipum eða forritum í tölvunni og fókusaðu á eitt í einu.

7. Sjálfsagi

Lærðu að þekkja tímaþjófana í lífi þínu og birtingarmyndir frestunar og reyndu að sveigja frá þeim. Verðlaunaðu þig þegar vel hefur gengið. Skoðaðu hvort einhverskonar umbunarkerfi henti þér. Ekki gefast upp þó þú rennir á rassinn með skipulagið - búðu bara til nýtt (og raunhæfra?) plan og áfram gakk! Reyndu að nýta þér tæknina frekar sem hvata en að láta hana stjórna þér. Hefurðu t.d. prófað tímavaka eða tímavakaöpp eins og TimeTimer eða Focus Keeper?

8. Jafnvægi

Hlúðu vel að þér og hugaðu að grunnstoðunm hvíld, næringu og hreyfingu. Ef fer að halla undan fæti í einum þessara grunnstoða - leitaðu strax lausna við að kippa því í lag. Ekki gleyma að taka frá tíma í það sem nærir þig og gefur þér orku, eins og rækta fjölskyldu- og vinasambönd - slíkt er ekki síður hluti af góðri tímastjórnun. Reyndu síðan að finna þér leiðir til að temja þér og viðhalda jákvæðu hugarfari þar sem þú einblínir á framfarir og vellíðan frekar en fullkomnun.

Góð tímastjórnun snýst í grunninn um að taka ákvarðanir um að gera það sem kemur best út fyrir þig til lengri tíma litið. Það er nefnilega aldrei tími til þess að gera allt - en það er alltaf tími til að gera mikilvægustu hlutina hverju sinni. Þú þarft bara að kortleggja hvað er mikilvægast fyrir þig.
 

 Ef þú veist ekki alveg í hvorn fótinn þú átt að stíga og/eða langar að skoða einhvern þessara þátta nánar, ertu allir ME-ingar hjartanlega velkomnir að kíkja á Nönnu náms- og starfsráðgjafa. Hægt er að panta tíma í gegnum Innu - með því að smella á "panta viðtalstíma".