8 liða úrslit Gettu betur á fimmtudag

8 liða úrslit Gettu betur byrja næstkomandi fimmtudag með viðureign Menntaskólans á Egilsstöðum á móti Fjölbrautaskólanum í Ármúla.

Lið ME undirbýr sig fyrir þriðju ferðina til Reykjavíkur til að taka þátt, en í þetta skiptið verður bein útsending úr sjónvarpi allra landsmanna frá Gettu betur. Útsendingin hefst klukkan 20:05. Einhverjir nemendur ME ætla að mæta í Útvarpshúsið til að styðja þau Steinar, Sigvalda og Emblu, en veður er vissulega að setja strik í reikninginn. Stuðningsliðið flýgur til Reykjavíkur en ekki er gott útlit með flug á fimmtudaginn, né heldur seinnipart miðvikudags. Því viljum við biðja alla fyrrum ME-inga sem staddir eru í Reykjavík með ME-hjartað enn á sínum stað, að mæta upp í anddyri Útvarpshússins kl. 19:30 á fimmtudag og styðja við liðið okkar!

Við spurðum Jóhann Hjalta þjálfara liðsins hvernig undirbúningur gengi: "Við höfum verið að taka æfingar og munum taka þær núna á hverjum degi fram að keppni. Æfingarnar miða að því að hraðaspurningum og að kynnast spurningaformum sem voru ekki í útvarpsviðureignum en verða í sjónvarpinu."

Við spurðum Hjalta einnig hvernig ferðaplönin liðsins væru: "Ferðaplön hafa verið skemmtilegur hausverkur en við eigum flug í fyrramálið en í dag verður fylgst með breytingum á spánni með möguleikann á að fljúga í kvöld í huga. Þetta veður er já ekki að gera gott mót."

Við hlökkum til að fylgjast með viðureigninni og segjum hátt og skýrt ÁFRAM ME!