Það er sannarlega ekki tekið út með sældinni að halda úti Eramsus + ungmennaskiptaverkefni á tímum heimsfaraldurs og það hefur því reynt verulega á sveigjanleika, jákvæðni og lausnamiðaða hugsun hjá þeim nemendum sem taka þátt í F:ire&ice ungmennaskipta- og útivistarverkefni skólans.
Markmið verkefnisins er að nýta útivist, reynslunám og tengsl við náttúruna til að efla sjálfsþekkingu, sjálfstraust og samskiptahæfni og er það unnið í samstarfi við UÍA og írsk ungmennasamtök sem vinna að svipuðum markmiðum með ungu fólki á Írlandi. Upphaflega var ráðgert að hóparnir tveir myndu hittast í fyrra og eiga saman viku í írskum þjóðgörðum að vori og viku í íslenskum óbyggðum að hausti. Það er skemmst frá því að segja að ekkert varð af ferðalögum erlendis en ME hópurinn var þeim mun duglegri hér heima, átti m.a. ævintýralega vetrarferð í Óbyggðasetrið í Fljótsdal og gekk svo Víknaslóðir í lok sumars.
Nú í haust fór verkefnið aftur af stað með nýjum nemendahóp sem ólmur beið þess að komast til Írlands og taka síðan vel á móti írska hópnum hér eystra. En heimsfaraldurinn lét ekki að sér hæða og þó skólalokun og sóttvarnarreglur hafi sannarlega gert hópnum erfiðara fyrir en ella þá hélt hópurinn sínu striki eins og hægt var og er búinn að bralla ýmislegt það sem af er vetri.
Nú liggur þó fyrir að ekki verður af Írlandsferð þetta árið og Eramsus + ungmennaskiptaverkefninu hefur verið frestað til ársins 2022 og gengur nú undir vinnuheitinu F:ire&ice; third time´s the charm! Það er því ljóst að áhugasamir geta farið að renna hýru auga til umsókna í hópinn í haust. Núverandi F:ire&ice hópur lætur þó ekki deigan síga og klárar veturinn í útivist og sjálfseflingu í austfirsku umhverfi og næsta víst að þar leynast ævintýrin á hverju strái!
Hér eru nokkrar myndir af verkefnum hópsins það sem af er vetrar.