F:ire&ice Útivistarhópur skólans er nú enn og aftur á faraldsfæti en hópurinn átti viðburðaríka og vel heppnaða ferð til félaga sinna á Írlandi í vor, en verkefnið er samvinnuverkefni ME, UÍA og írsku ungmennasamtakanna YMCA.
Nú er komið að því að endurgjalda gestrisni vina okkar á Írlandi og bjóða þá velkomna í austfirskar óbyggðir með ferð á Víknaslóðir þar sem hópurinn mun takast á við fjöll, firnindi og ef að líkum lætur nokkuð vætusama norðaustanátt, en ekki síður njóta samveru, óbyggðasælu og stórkostlegrar náttúru. Hópurinn sem hefur verið að störfum við undirbúning og sjálfseflingu í allan vetur er því vel nestaður inní komandi áskorun og góða skapið og þrautseigjan með í bakpokanum, enda er markmið verkefnisins sjálfsefling, samvinna og að auka tengsl hvers og eins við sjálfan sig og náttúruna. Næg tækifæri verða til að efla seiglu, styrkja samvinnu, trú á eigin getu, og virkja nýja styrkleika og uppgötva fegurð náttúrunnar, því eins og þau vita sem til þekkja þá bjóða Víknaslóðir upp á 12-17 km dagleiðir í fjölbreyttu og ægifögru landslagi.
Áhugasömum er bent á að fylgjast með samfélagsmiðlum skólans Facebook og Instagram en þar mun hópurinn láta á sér kræla eins og samband við umheiminn leyfir hverju sinni.
Einnig er vert að benda á að þetta skólaár verður boðið upp á sjálfseflingar- og útivistaráfangann Eldur&Ís sem lýtur sömu lögmálum en fer eingöngu fram á Austurlandi og án samstarfs við Írland. Nánari upplýsingar má finna um hann hér á síðunni undir yfirskriftinni Eldur&Ís - sjálfsefling, útivera og ævintýri.