Menntaskólinn á Egilsstöðum og Verkmenntaskóli Austurlands hafa fengið undanþágu frá 30 manna hámarki í rými vegna lítilla smita á Austurlandi síðan í ágúst.
Þetta eru sannarlega gleðifréttir fyrir skólastarfið í þessum skólum.
Þetta þýðir að allir dagskólanemendur í ME munu komast í skólann á morgun fimmtudag 29.10 og kennsla verður samkvæmt stundaskrá.
Nemendur utan heimavistar eru sömuleiðis velkomnir í mötuneytið eins og var fyrir 4. október.
Eins metra reglan gildir að sjálfsögðu áfram í skólanum og tekur borðauppröðun í stofum áfram mið af því.
Sömuleiðis höldum við ótrauð áfram með að hreinsa okkar vinnusvæði í skólastofum og pössum nálægðarmörk eins og hægt er í almennum rýmum skólans enis og göngum, snyrtingum og í mötuneyti skólans.
Þið ykkar sem finnið fyrir veikindum eins og almennum slappleika eða til dæmis kvefi eruð áfram beðin um að halda ykkur heima, af tillitssemi við aðra nemendur eða starfsmenn.
Einnig er ráðlagt að fara í Covid skimun til öryggis.
Það verður grímuskylda í skólanum og ME leggur til sóttvarnargrímur. Þær eru staðsettar við aðalinngang kennsluhúss og sömuleiðis við matsal heimavistarhúss.
Áfram með það sem er allra mikilvægast, sem eru ykkar eigin sóttvarnir.
Þú getur varið þig og aðra gegn smiti með því að fylgja þessum ráðum
Ef vatn og sápa eru utan seilingar er gott að nota handspritt, til dæmis þegar þú hefur notað greiðslukort eða komið við fleti sem margir snerta, svo sem hurðarhúna.
Ef þú þarft að hósta eða hnerra skaltu nota olnbogabótina eða einnota klúta. Þannig kemurðu í veg fyrir að úði fari á hendur. Gættu þess að hósta eða hnerra ekki á aðra.
Takmarkaðu náin samskipti við annað fólk, t.d. handabönd og faðmlög. Finndu aðrar leiðir til þess að heilsa sem ekki fela í sér snertingu.
Reyndu að bera ekki hendur upp að andlitinu, sérstaklega augum, nefi og munni.
Þrífðu oftar fleti sem eru mikið notaðir.
Ef þið vegna heilsufars eða annarra sérstakra aðstæðna sjáið ykkur ekki fært að stunda dagskólanám í skólahúsnæðinu þá eruð þið beðin að senda póst á skrifstofa@me.is og tilgreina í stuttu máli ástæður þess.
Þá verður vinna ykkar í skólanum með fjarnámssniði í gegnum námsvef skólans Canvas og samskipti við kennara verða í gegnum tölvuna og símann.
Til hamingju með undanþáguna. Vonandi verður hún sem lengst