Útivistaráfanganum Eldur og Ís, sem var í gangi á síðustu haustspönn, lauk með óbyggðaferð nú á spannarskilum. Áfanginn var vel sóttur og ýmis spennandi og krefjandi verkefni sem nemendur fengust við en kennslan var byggð á hugmyndafræði reynslunáms, náttúrumeðferðar og almennrar útivistarþjálfunar.
Hópurinn tók sér ýmislegt fyrir hendur í haust og fór víða, gengið var að Fardagafossi, Stuðlagili og upp á Hrafnafell auk þess sem rúsínan í pylsuendanum var helgarferð í Óbyggðasetrið í Fljótsdal en þar fengu nemendur að fást við ýmis útivistartengd verkefni í samstarfi við Náttúruskólann. Á meðal þess nemendur spreyttu sér í var tálgun, útieldun, línuvinna og hnútar, klettasig og súrrun auk þess sem nemendur fóru yfir Jökulsá í Fljótsdal á kláf, gengu upp í Gjárhjalla og fræddust um lífið inn til fjalla fyrr á tímum. Samhliða því að vinna með útivist og náttúrulæsi var jafnframt lögð áhersla á hópefli, aukna sjálfsþekkingu og -eflingu þátttakenda, og færni í samskiptum og samvinnu.
Nemendur koma því sannarlega reynslunni ríkari heim úr óbyggðum.