Í Menntaskólanum á Egilsstöðum var boðið upp á útivistaráfanga síðastliðinn vetur. Þessi áfangi hafði þá sérstöðu að megináherslur voru að efla sjálfsþekkingu nemenda, trú á eigin getu, samskiptahæfni og tengsl þeirra við náttúruna og sjálfan sig. Aðferðum náttúrumeðferðar og reynslunáms var óspart beitt og hittist hópurinn vikulega í allan vetur og fékkst við ýmiskonar áskoranir og ævintýri. Upphaflega stóð til að hópurinn tæki þátt í Erasmus+ ungmennaskiptaverkefni með írskum ungmennasamtökum, en ráðgert var að ME hópurinn sækti írska jafnaldra sína heim síðastliðið vor og að írski hópurinn ásamt þeim íslenska dveldu saman viku í austfirskum óbyggðum nú í sumarlok. Heimsfaraldur feykti þeim fyrirætlunum út í veður og vind en íslenski hópurinn lét það ekki á sig fá og hluti hans gekk Víknaslóðir saman fyrir skemmstu.
Boðið verður upp á sambærilegan áfanga við ME nú í haust þar sem útivist, náttúrumeðferð og sjálfsefling verða í fyrirrúmi og ef ástandið í heiminum leyfir munum við taka upp þráðinn varðandi Írlandsför en ella finna okkur ævintýri í heillandi náttúru í heimabyggð, af henni er jú nóg. Nánari upplýsingar um áfangann og umsókn í hann má finna á heimasíðu ME, eða hjá Hildi félagsráðgjafa (hildur@me.is) hvetjum áhugasama að kynna sér það.
Hér má finna ferðasögu hópsins, ritaða af Ásmundi Mána Þorsteinssyni.
F;ire and Ice á Víknaslóðum 10.-14. ágúst
Dagur 1:
Við lögðum af stað frá Borgarfirði á milli kl. 10-11 og þrumuðum af stað upp brekkurnar í örlítilli rigningu. Eftir innan við kílómetra sleit Máni skóreim en þá voru góð ráð dýr! Smá ducktape-i og brasi seinni fórum við aftur af stað og ferðin gekk ögn betur, sólin sýndi sig og fyrsta nestis hlé var í grænni laut við lítið vatn (eins og í bíó!). Í roki spændum við áfram upp brekkurnar og enduðum í þokuþykkni á Gagnheiðinni svo miklu að enginn nema fuglinn fljúgandi komst yfir (djók, það var samt alveg alvöru þoka). Snöggur og kaldur hádegismatur var etinn í fjallshlíð þegar að toppi var náð og lá leiðin þar með öll niður á við. Í þoku, gúglum útsýnið bara seinna. Náðum skála um kl. 14 en eftir smá slökun röltum við niður í fjöru í sandfoki og komum okkur síðan í kakó og kvöldmat í skálanum! Eftir matinn, sem samanstóð af dýrindis-dúfnakjöti og tilbehør, skunduðum við aftur niður að sjó en þá hefði storminn lægt og því kjöraðstæður fyrir varðeld og kósí. Við grilluðum sykurpúða og poppuðum (með misjöfnum árangri) ásamt því að dansa eins og enginn væri að horfa (þar voru danstaktar sem að munu sennilega aldrei aftur líta dagsins ljós). Þegar að við rönkuðum við okkur var komin svaka þoka svo þegar að eldurinn hafði verið slökktur fikruðum við okkur í hægt og rólega í átt að skála og svefnpokum (týndumst alveg næstum en það var allt í góðu)! Stuttri kakó/kex/spila-stund síðar svifu allir inn í draumalandið, spenntir og smá stressaðir fyrir degi 2.
Lengd: 11 km
Dagur 2:
Vekjaraklukkur hringdu 8:30 og hafragrautur var soðinn (og étinn) fyrir brottför. Veðrið var ómótstæðilegt svo við mökuðum á okkur þykku lagi af sólarvörn og fórum í öll okkar léttustu föt. Við örkuðum af stað og tókum mjög reglulegar (stundum langar) vatns pásur sem einnig voru nýttar til þess að sleikja sólina! Þegar að brekkur fóru að verða lengri og brattari kárnaði gamanið vegna þess hve sjúklega heitt var en það lifðu þó allir af. Áð var við Gæsavötn þar sem að fólk kældi ýmist fætur eða haus. Stoppið varð þó töluvert lengra en plön gerðu ráð fyrir þar sem að tækifærið var einnig nýtt til þess að skipta um sveitta hælsærisplástra og sprengja blöðrur. Eftir töluvert labb mættum við brekku sem reyndist öllum mjög krefjandi og áhugavert hefði sennilega verið að rannsaka mismunandi aðferðir sem að fólk notaði til þess að koma sér áfram. Sumir öskruðu, aðrir einbeittu sér að markmiðinu en einnig mátti heyra Baggalútslagið “Viltu ekki bara fara að grenja” raulað á milli djúpra dramatískra andarslitra. Sveitt og stolt náðum við efst í brekkuna en eftir fagnaðarlæti fundum við okkur góða laut, undir brekkum Hvítserks, fulla af mjúkum mosa og lögðumst þar, nutum sólarinnar og virtum fyrir okkur fegurðina. Þegar hingað var komið lá leið okkar rakleiðis niður í Húsavík þar sem að þreyttir ferðalangar fóru úr gönguskóm og grilluðu langþráð barbíkjú rif. Á leiðinni niður í Húsavík var þó nokkuð skemmtilegt atvik þar sem að Daníel var svo algjörlega í sínum eigin heimi að labba á miðjum vegi að hann tók ekki eftir bílnum sem að var fyrir aftan hann og vildi komast fram úr. Þrátt fyrir hróp og köll frá okkur hinum tók hann ekki eftir bílnum fyrr en hann stoppaði, tók upp vatnsflöskuna sína og fékk sér sopa alveg slakur og sá fyrst þá hvernig bæði við og fólkið í bílnum emjuðum af hlátri. Eftir matinn var spilað, kjaftað og hlegið en sumir vilja meina að eitt fyndnasta móment ferðarinar hafi verið þarna. Þá er eitthvað verið að tala um að guggna á hlutum en eitthvað misheyrist sumum og allt í einu heyrist “Það er fínt að vera með fóbíu fyrir gubbi, þá bara sleppir maður því að gubba!” Við þetta trylltist lýðurinn og voru menn lengi að jafna sig. Við leyfðum okkur nú að vaka aðeins lengur þetta kvöld úr því að hvíldardagur beið okkar en þreytan var fljót að segja til sín og við lögðumst á okkar grænu eyru.
Lengd: 17 km
Dagur 3:
Frídagur. Vöknuðum um kl. 9, borðuðum morgunmat (sem samanstóð af BBQ rifjum og brauði með áleggi) og spiluðum svo fram eftir morgni. Þennan morgun sögðu létu vöðvar líkamans vita að þeir væru þreyttir og því stauluðust margir um með harðsperrur fyrstu klukkustundir dagsins. Rétt fyrir hádegi fylltum við samt vatnsflöskur og örkuðum af stað í leit að ævintýrum í hinni fögru Húsavík. Veðrið var ekki jafn gott og daginn áður en samt sem áður allt í góðu. Við löbbuðum út með víkinni en eftir dásamlegt berjastopp fundum við Húsavíkurkirkju þar sem að við settumst inn og spjölluðum góða stund. Við töltum því næst í rólegheitum áleiðis til baka en féllum aftur fyrir berjalynginu, lögðumst því í grasið, spændum upp í okkur aðalbláber, ræddum ýmislegt (m.a. jarðarfarir) og hlustuðum á ljúfa tóna sem að flæddu úr símtóli Daníels. Þegar við komum aftur í skálann fór Hildur upp á fjall í leit að símasambandi á meðan að við hin ýmist fórum í sturtu, þrifum grillið frá kvöldinu áður eða drukkum kakó. Eins og áður var síðan spilað fram að kvöldmat en í þetta sinn var maturinn pasta, pylsur, niðursneiddur ostur og tómatssósa. Eftir uppvask var spilað meira og eftir stutt danspartý (tókum meðal annars hinn vinsæla Greased Lightning dans) fórum í háttinn og hlóðum batteríin fyrir komandi átök.
Lengd: 8 km
Dagur 4:
Lagt af stað kl. 10 í 21 stiga hita en fyrst af öllu mætti okkur 400 metra hækkun. Það var öllum svolítið heitt þegar að toppi var náð en það sem að flestir notuðu til þess að koma sér upp var að á toppnum beið okkar síma- og netsamband. Jeij! Á þessum tímapunkti blasti einnig við okkur sólríkt útsýni inn í Loðmundarfjörð, Seyðisfjörð og meira að þóttist fólk sjá glitta í Dalatanga sem er yst í Mjóafirði. Þarna vorum við þó ennþá í 420m hæð og stóðum frammi fyrir því að komast niður á jafnsléttu aftur. Í stað þess að ganga veginn fórum við off-road og löbbuðum í fjallshlíðinni í hífandi roki en alltaf sól og blíðu. Við stoppuðum í berjamó og ræddum bæði Eurovision og sushi áður en að við komum okkur niður snarbrattann gönguslóðann niður á veg. Þegar á veginn var komið tók við heldur leiðinleg ganga (sko fínt útsýni en brjálaður mótvindur og smá rigning) eftir veginum langleiðina í skálann. Við stoppuðum þó við fallega brú og röltum niður að náttúrulegri höfn þar sem að við klifruðum í klettum og hlustuðum á sjóinn. Þegar ekki var langt í skála ákváðum við að stytta okkur leið sem var ágætishugmynd nema fyrir það að Máni missteig sig og var því úr leik fyrir lokadaginn. Á endanum komust þó allir í skála í mannskaðaroki og rigningu (það var í alvöru eins og skálinn myndi fjúka) þar sem að við tók grjónagrautsgerð og kósý. Eftir matinn var gripið í Trivial Pursuit og ýmislegt rætt út frá spjaldakassanum hennar Hildar (hann geymir margskonar misdjúpar og dramatískar töfraspurningar sem notaðar voru alla dagana). Þegar leið á kvöldið/nóttina og allir hefðu átt að vera komnir í svefnpoka og sofnaðir læsti Daníel útidyra hurðinni á skálanum samviskusamlega og fór síðan að sofa. Það vildi bara ekki betur til en Hildur og Máni voru enn þá úti að bardúsa eitthvað svo þegar að þau loksins ætluðu að komast inn voru læst úti. Þá voru góð ráð dýr en Huldur ákvað að príla upp brunastigann til þess að ná athygli svefnpurkanna. Eftir töluvert bank (þar sem að Daníel hélt bara að einhver væri í alvöru að reyna að brjótast inn/Hildur væri draugur) vaknaði Ísabella loksins og hleypti þeim inn. Bara síðasti leggurinn eftir!
Lengd: 15,5 km
Dagur 5:
Vaknað 6:30 í sól og blíðu (rokið virðist samt eiga heima í Loðmundarfirði því það var ennþá töluvert) en eftir lummu-steikingar-klúður samanstóð morgunmaturinn af brauði, lummudeigi (grjónagraut með sykri og bönunum) og eplum. Það tók töluverða stund að koma þeim sem eftir voru af hópnum af stað í göngu dagsins þar sem þurfti að finna far fyrir Mána og Ísabellu aftur á Borgarfjörð ásamt því að Máni náði að stífla vaskinn með hrísgrjónum og sulla svo um allt gólf við að losa hana. Eftir erfiða byrjun á deginum skyldu leiðir og göngugarpar örkuðu af stað. Máni og Ísabellu biðu hins vegar í sólinni eftir skálavörðunum sem að skutluðu þeim stuttu seinna í Borgarfjörð. Hildur, Þórey og Daníel fengu draumaveður í göngu sinni yfir Kækjuskörð þar sem að sól skein í heiði og fuglarnir sungu (eins og áður var samt smá rok). Gengið var í þvílíkri náttúrufegurð bæði fyrir, í Fitjum og Hraundal, og eftir, í Kækjudal, skörðin sjálf en hækkunin upp að skörðunum var krefjandi enda tæpir 800m. Á ákveðnum tímapunkti var gengið yfir snjóbreiðu þar sem að göngustafir voru sem himnasending. Kollur álfasteinn var skoðaður og hópurinn kynnti sér söguna um kvensama álfinn sem þar býr. Þegar að göngutríóið sameinaðist loks "bíladúóinu" á Þverár-brúnni í Borgarfirði urðu fagnaðarfundir og ferðinni var lokað með spjalli áður en haldið var til Maríu (mömmu Daníels) í nýbakaðar vöfflur fyrir bílferðina heim.
Vegalengd: 16 km
Það sem ég lærði af göngunni:
Ég lærði að ég get allt sem ég ætla mér þrátt fyrir ýmsar hindranir. Brekkurnar sem voru á vegi okkur sýndu mér að þó svo að leiðin virðist óendanlega löng þá er hún það í rauninni ekki og því óþarfi að hafa áhyggjur af því. Þetta er hægt að yfirfæra yfir á margt en efst þessa dagana er mér í huga háskólanám. Það er frekar ógnvænlegt í augnablikinu en ég reyni eins og ég get að horfa á það eins og brekkuna. Það verða tímapunktar þar sem að auðveldast verður að gefast upp en þá er gott að hafa þessa reynslu, að vita að ég lifi brekkur og hindranir af.
Ég lærði einnig að maður veit aldrei hvaðan annað fólk kemur. Fyrir ferðina hafði ég ákveðnar hugmyndir um hópinn en eftir ferðina verð ég að segja að þessar hugmyndir mínar hafa breyst töluvert. Ég ber því aukna virðingu fyrir fólki í kringum mig (ekki að hún hafi ekki verið töluverð, en nú get ég bara ekki annað en hugsað að ég veit ekkert hvað þessi einstaklingur hefur gengið í gegnum) og hef sett mér það markmið að kynnast fólki áður en að ég hef skoðun á því.
Ég lærði að það er allt í lagi að sýna veikleika og líða ekki vel (þrátt fyrir að ég sé ennþá svolítið mikið hressi gaurinn) en fólk ber alveg enn þá virðingu fyrir manni þó það sjá mann í viðkvæmu ástandi. Fyrir ferðina átti ég frekar erfitt með að vera opinn við fleiri en bara örfáa útvalda en vonandi hafði þessi ferð sú áhrif að ég geti tjáð mig um erfið mál án þess að fara í flækju. Ég alla vega gerði það upp að einhverju marki og ennþá lifi ég svo ég er bjartsýnn.
Kannski augljós punktur en ég lærði einnig að meta landið okkar enn þá betur. Sem mikil ferðageit hef ég skoðað og gert ýmislegt (t.d. keyrt Víknaslóðir) en aldrei hefði mig grunað að það hefði svona allt öðruvísi áhrif að vera gangandi. Öll fjöll urðu hærri og stórfenglegri, sjórinn var ekki bara hvert annað vatn heldur varð hann að mislitu listaverki og u.þ.b. öll önnur upplifun mín af náttúrufyrirbrigðum sem á vegi okkur urðu breyttust á einn eða annan hátt. Að vera svo þreyttur að mann langar smá að gráta eftir fáránlega langa og erfiða brekku ásamt því að vera svo heitt að maður er viss um að bráðum fari húðin að dropa af manni með svitanum. En að leggjast í sólskini í mosa/gras þegar að mann líður svona og virða fyrir sér heiminn er eitthvað annað. Eitthvað sem vonlaust er að upplifa án þess að prófa það. Að koma keyrandi og leggjast á sama stað í sama veðri er eins og að hlusta bara á eina tegund tónlistar í stað þess að kanna aðrar stefnur; ekki samanburðarhæft!