Kennari við skólann fallinn frá - jarðarför 12. febrúar

Magnús Halldór Helgason
Magnús Halldór Helgason

Magnús Halldór Helgason, kennari við skólann lést þann 30. janúar aðeins 62 ára að aldri.

Magnús hóf störf við ME haustið 2003. Hann kenndi lengst af á starfsbraut en einnig kenndi hann félagsgreinar og sögu. Magnús sinnti ýmsum störfum fyrir skólann eins og ritstörfum á afmælisári skólans 2019, hafði umsjón með starfsbraut um tíma og kom að skráningarvinnu í skjalasafni. Það er afar dýrmætt fyrir skóla eins og ME að hafa fjölhæfa starfsmenn.

Magnús var alltaf vingjarnlegur og sanngjarn við nemendur. Magnús var góður félagi og samstarfsmaður, afskaplega jákvæður og glettinn, stutt var í húmorinn og alltaf gaman að eiga samskipti við hann. Það er mikill söknuður af honum úr starfsmannahópnum.

Jarðaför Magnúsar fer fram á Selfossi, mánudaginn 12. febrúar kl. 13:00. Streymt verður frá athöfninni á mbl.is/andlat. Kennsla mun falla niður í ME frá kl. 13 mánudaginn 12. febrúar.

Starfsfólk og stjórnendur skólans senda fjölskyldu Magnúsar og vinum innilegar samúðarkveðjur.