Af æfingu LME 15. janúar
Mikið stendur til hjá Leikfélagi Menntaskólans (LME) um þessar mundir. Við ræddum við Sesselju Ósk formann LME og forvitnuðumst aðeins um starfið.
Hvað er framundan hjá LME?
LME er að fara að frumsýna barnaleikritið Gosa 15. Febrúar í Sláturhúsinu. Leikritið Gosi segir frá leikfangasmiðinum, Jakob, sem sker út strengjabrúðu á töfrastund og brúðan lifnar við. Þarna reynist vera ótaminn og óstýrilátur strákur, Gosi að nafni. Hann óhlýðnast föður sínum og í stað þess að mæta í skólann stefnir Gosi á vit vafasamra ævintýra sem reka hann á ótrúlegustu staði.
Hvernig byrjaði undirbúningur fyrir sýninguna og hversu margir koma að svona verki?
Allir fengu hlutverk fyrir áramót og við byrjuðum að æfa með krafti strax eftir áramót. Í heildina fáum við að sjá 22 manns stíga á svið, 17 leikara og 5 dansara. Það eru um 50 nemendur sem munu koma að sýningunni, við erum með tæknimenn, sminkur, búningateymi, fólk í sviðsmynd og fólk í miðasölu.
Hver leikstýrir í ár?
Hún Andrea Katrín Guðmundsdóttir er leikstýran í ár og nemandinn Ágúst Bragi Daðason er aðstoðar leikstjóri. Frumsýning er 15. febrúar og verða sýningar yfir einhvern tíma.
Mikil vinna og skipulag er í kring um svona leiksýningu. Hvernig sitja í stjórn LME í ár?
Í stjórn í ár sitja Sesselja Ósk Jóhannsdóttir, Birgitta Dröfn Jóhannsdóttir, Karítas Mekkín Jónasdóttir, Auðun Lárusson Snædal og Bragi Már Birgisson.
Þökkum Sesselju kærlega fyrir spjallið og hvetjum öll til að fylgjast með ferlinu á LME - instagram og mæta á Gosa í febrúar!