Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum sýnir "Litlu hryllingsbúðina" á næstu dögum. Frumsýning verður 14. febrúar kl. 20:00. Sýningar fara fram í Sláturhúsinu.
Leikritið er söngleikur sem segir frá Baldri sem vinnur í lítilli blómabúð í skuggahverfi borgarinnar. Viðskiptin ganga fremur illa og blómabúðin er um það bil að leggja upp laupana. Í blómabúðinni vinnur einnig Auður, sæt ljóska sem Baldur er ástfanginn af. En hún á kærasta, leðurklæddan og ofbeldisfullan tannlækni. Dag einn kaupir Baldur dularfulla plöntu, eftir því sem plantan vex og dafnar aukast stöðugt viðskiptin í blómabúðinni en ekki er allt sem sýnist.
LME hefur unnið hörðum höndum að því að æfa, útbúa leiksvið og búninga og sinna öllu því sem slík sýning krefst. Leikstjóri sýningarinnar er Jóel Sæmundsson.
Hvetjum öll til að kíkja á sýningar LME.