Dagana 27.-29. september heimsóttum við, Nanna náms- og starfsráðgjafi og Begga áfangastjóri, fjóra framhaldssskóla á höfuðborgarsvæðinu; Borgarholtsskóla, Tækniskólann, Fjölbrautarskólann við Ármúla og Fjölbrautarskólann í Breiðholti. Heimsóknardögunum lukum við síðan hjá Iðunni - fræðslusetri.
Meginmarkmið ferðarinnar var að efla tengsl, styrkja samstarf og sjá hvernig aðrir eru að vinna að samskonar málum og við í ME en kannski á annan hátt eða út frá öðru sjónarhorni.
Ásamt því að fá að skoða skólana sátum við kynningar og spjallfundi með náms- og starfsráðgjöf og fleira starfsfólki þar sem ýmis málefni voru rædd. Má þar t.d. nefna brauta- og námsframboð, mat á námi og skólaskipti, náms- og starfsráðgjöf, stoðþjónustu, stuðning, utanumhald og eftirfylgni við nemendur - með sérstakri áherslu á þau sem glíma við áskoranir á borð við námsörðugleika, ADHD, hafa annað móðurmál eða eru tvítyngd, og þau sem eru á sérnáms- eða starfsbrautum. Í Iðunni var jafnframt rætt vítt og breytt um raunfærnimat og nýtilkomnar ferilbækur iðnnema á námssamningi.
Hér fyrir neðan má skoða nokkrar myndir frá dögunum.
|
Myndir úr Tækniskólanum: Náms- og starfsráðgjafarnir Inga Jóna, Halla María, Þórdís, Erna Ýr og Anna Ósk tóku á móti okkur í spjallfundi |
Myndir úr FÁ: Náms- og starfráðgjafarnir Sigrún og Sandra tóku á móti okkur í FÁ og sýndu okkur skólann þar sem við sáum frábæra aðstöðu á ýmsum sviðum. Einnig hittum við Guðlaugu, náms- og starfsráðgjafa, sem eitt sinn bjó á Neskaupsstað. |
Myndir úr FB: Elísabet, Fríða og Sesselja tóku á móti okkur í FB í spjalli og sýndu okkur skólann. Þar að auki hittum við Hönnu, sem hefur umsjón með vinnustofu á bókasafni skólans. Einnig fengu við fróðlega kynningu frá Nínu Björgu fagstjóra á snyrtibraut skólans og að sjá þá flottu aðstöðu sem nemar þar hafa aðgengi að. |
Myndir úr Iðunni - fræðslusetri: Erna, náms- og starfsráðgjafi, tók á móti okkur í Iðunni og fræddi okkur m.a. um starfsemi fræðslusetursins, raunfærnimat, ferilbækur o.fl. |
Móttökur ráðgjafa og starfsfólks stofnananna voru dásamlegar og var ferðin skemmtileg og nærandi endurmenntun fyrir okkur stöllur. Kveðjur inn í spannafríi til nemenda, starfsfólks og velunnara ME. |