ME á ferð um höfuðborgina

Dagana 27.-29. september heimsóttum við, Nanna náms- og starfsráðgjafi og Begga áfangastjóri, fjóra framhaldssskóla á höfuðborgarsvæðinu; Borgarholtsskóla, Tækniskólann, Fjölbrautarskólann við Ármúla og Fjölbrautarskólann í Breiðholti. Heimsóknardögunum lukum við síðan hjá Iðunni - fræðslusetri.

Meginmarkmið ferðarinnar var að efla tengsl, styrkja samstarf og sjá hvernig aðrir eru að vinna að samskonar málum og við í ME en kannski á annan hátt eða út frá öðru sjónarhorni.

Ásamt því að fá að skoða skólana sátum við kynningar og spjallfundi með náms- og starfsráðgjöf og fleira starfsfólki þar sem ýmis málefni voru rædd. Má þar t.d. nefna brauta- og námsframboð, mat á námi og skólaskipti, náms- og starfsráðgjöf, stoðþjónustu, stuðning, utanumhald og eftirfylgni við nemendur - með sérstakri áherslu á þau sem glíma við áskoranir á borð við námsörðugleika, ADHD, hafa annað móðurmál eða eru tvítyngd, og þau sem eru á sérnáms- eða starfsbrautum. Í Iðunni var jafnframt rætt vítt og breytt um raunfærnimat og nýtilkomnar ferilbækur iðnnema á námssamningi.

Hér fyrir neðan má skoða nokkrar myndir frá dögunum.


Myndir úr Borgó: Náms- og starfsráðgjafarnir Sandra Hlín og Kristín Birna tóku á móti okkur á spjallfundi og sýndu okkur skólann.
Þar að auki hittum við m.a. Ásu safnstýru sem jafnframt hefur umsjón með próftöku fjarnema í Borgó og Þórdísi Helgu sem hefur m.a.
umsjón með námsverinu en þar stendur nemendum ýmis námsstuðningur til boða.


Myndir úr Tækniskólanum: Náms- og starfsráðgjafarnir Inga Jóna, Halla María, Þórdís, Erna Ýr og Anna Ósk tóku á móti okkur í spjallfundi
og sýndu okkur skólann á Háteigsvegi.Við hittum jafnframt Sigríði Halldóru, brautarstjóra K2 (tækni- og vísindabraut skólans) og enskukennara.


Myndir úr FÁ: Náms- og starfráðgjafarnir Sigrún og Sandra tóku á móti okkur í FÁ og sýndu okkur skólann þar sem við sáum
frábæra aðstöðu á ýmsum sviðum. Einnig hittum við Guðlaugu, náms- og starfsráðgjafa, sem eitt sinn bjó á Neskaupsstað.

Myndir úr FB: Elísabet, Fríða og Sesselja tóku á móti okkur í FB í spjalli og sýndu okkur skólann. Þar að auki hittum við Hönnu,
sem hefur umsjón með vinnustofu á bókasafni skólans. Einnig fengu við fróðlega kynningu frá Nínu Björgu fagstjóra á snyrtibraut
skólans og að sjá þá flottu aðstöðu sem nemar þar hafa aðgengi að.

Myndir úr Iðunni - fræðslusetri: Erna, náms- og starfsráðgjafi, tók á móti okkur í Iðunni og fræddi okkur m.a. um starfsemi
fræðslusetursins, raunfærnimat, ferilbækur o.fl.


Mynd af Nönnu og Beggu í Iðunni.

Móttökur ráðgjafa og starfsfólks stofnananna voru dásamlegar og var ferðin skemmtileg og nærandi endurmenntun fyrir okkur stöllur.
Við mælum svo sannarlega með því að starfsfólk menntastofnana heimsæki og læri af kollegum innan annarra skóla og starfsvettvanga.

Kveðjur inn í spannafríi til nemenda, starfsfólks og velunnara ME.
Nanna og Begga