Menntaskólinn á Egilsstöðum er fyrirmyndarstofnun 2024 eftir að niðurstöður úr Stofnun ársins voru kynntar.
ME er með heildareinkunnina 4,479 af 5 mögulegum og er í fjórða sæti í flokki meðalstórra stofnana. Fyrir ofan ME eru Þjóðskrá Íslands, Menntaskólinn á Ísafirði og Vinnueftirlit ríkisins. ME var í þriðja sæti í könnuninni í fyrra en 2 árin þar á undan var ME stofnun ársins.
Í könnuninni 2023 var heildareinkunn ME 4,46, ME hækkar því um tæp 2 stig á milli ára en fellur niður um eitt sæti. Þeir þættir sem koma hvað best út hjá ME eru ímynd stofnunarinnar og ánægja og stolt. Lægsta einkunn fær ME fyrir launakjör, en í flestum stofnunum er það sá þáttur sem er lægstur.
Skemmtilegt er að segja frá því að mjög margir framhaldsskólar koma vel út í þessari könnun sem gefur til kynna að góður starfsandi og góðar starfsaðstæður séu í framhaldsskólum landsins.
Almennt eru niðurstöður mjög góðar fyrir ME, en niðurstöður sem þessar eru nýttar til að vinna að umbótum og úrbótum í stofnuninni. Bæði er mikilvægt að rýna það sem hefur dalað milli ára, en einnig það sem er gott til að átta sig á því af hverju það er gott. Við erum afar stolt af okkar starfsfólki og erum þakklát fyrir okkar flotta starfsmannahóp.