Marta Kristín Sverrisdóttir, kennari við ME, gerði í samstarfi við innramat ME stutta rannsókn á gæðum fjarnáms í ME. Nú í maí birtist ritrýnd grein um rannsókn Mörtu ásamt umfjöllun hennar um fjarnám og gæði þess.
Í rannsókninni er Marta meðal annars að varpa ljósi á hvað stuðlar að auknum gæðum fjarnáms og er farið sérstaklega yfir samskipti, námsumhverfi og skipulag ásamt tæknilegum undirbúningi kennara. Als tóku 19 kennarar skólans sem kenna eða hafa kennt í fjarnámi þátt í könnuninni. Helstu niðurstöður sýna að styrkleikar kennara skólans liggja í góðu skipulagi og samskiptum við nemendur. Helsti veikleikinn í fjarnáminu eru samskipti nemenda við hvor aðra. Áhugavert var að sjá að tæp 16% kennaranna sem tóku þátt töldu sig hafa fengið fullnægjandi menntun um kennslu fjarnema í kennaranámi sínu, þar er klárlega sóknarfæri í kennaranáminu. Jafnframt var forvitnilegt að sjá að tæplega 80% kennaranna höfðu lært hverjir af öðrum í þessum efnum.
Fjarnemum hefur fjölgað jafnt og þétt í ME síðustu ár. Fjarnemar voru 358 við skólann vorið 2017 en voru 562 vorið 2021. Hluti af þessari aukningu liggur líklega í því kerfi sem ME starfar eftir, en kennt er á spönnum í stað anna. Það þýðir að nemendur eru um það bil 8 vikur að ljúka áfanga í stað 16 vikna. ME notar námsumsjónarkerfið Canvas, sem er sama kerfi og háskólarnir nota. Kennarar leggja sig fram við að vera með gott skipulag í áföngum og leiðbeina gjarnan nemendum í myndbandi á upphafssíðu Canvas með hvað má finna hvar. Yfir spönnina nota kennarar svo ýmsar leiðir til þess að miðla námsefninu, til dæmis með glærum, kennslumyndböndum, umræðuþráðum, gagnvirka kennsluforritinu Nearpod og fleiru.
Reglulega eru gerðar kannanir meðal fjarnema í ME ásamt áfangamati fjarnema. Í fjarnemakönnun árið 2020 voru 95% nemenda sem töldu sig geta mælt með fjarnámi í ME og hafa niðurstöður síðustu ár verið á þá leið að mikil ánægja er með fjarnám í skólanum.
Marta varpar ljósi á, í niðurstöðum könnunar sinnar, að kennarar í ME eru með svipaðar áherslur í sinni kennslu eins og talið er að endurspegli gott fjarnám í öðrum rannsóknum. Má þar nefna gott skipulag, sem margir töldu sinn styrkleika, gott aðgengi að kennurum, skjót viðbrögð við spurningum, skjót endurgjöf við verkefnum og stuðningur og skilningur í garð fjarnema. Sá þáttur sem kennarar í ME þyrftu helst að bæta miðað við niðurstöðurnar er að stuðla meira að samskiptum milli fjarnemanna og samvinnu þeirra á milli.
Hvetjum alla áhugasama að kynna sér innihald greinarinnar, en hana má nálgast hér.